Novo Nordisk hefur nú sett megrunarlyfið Wegovy á markað í Kína en heilbrigðisyfirvöld þar í landi samþykktu lyfið í júní á þessu ári. Fyrirtækið mun þá keppa við bandaríska framleiðandann Eli Lilly, sem fékk einnig sitt megrunarlyf samþykkt fyrir mánuði síðan.
Meira en 180 milljónir Kínverja búa við offitu í landinu og mun einn skammtur af lyfinu kosta 1.400 júan, eða um 26 þúsund krónur. Sjúklingar munu þá þurfa að greiða fullt verð fyrir lyfið þar sem það hefur ekki verið innleitt í sjúkratryggingakerfið.
Rannsóknir benda til þess að sjúklingar sem nota Wegovy geti misst meira en 10% af líkamsþyngd sinni. Wegovy er þá ætlað fólki sem er í alvarlegri ofþyngd en efnið í lyfinu kallast semaglútíð og hjálpar til við að draga úr matarlyst og stjórna blóðsykri.
Lyfið fór í sölu í Bandaríkjunum árið 2021 en þar kosta mánaðarbirgðir nú 1.349 dali, eða um 185 þúsund dali. Wegovy hefur síðan þá notið mikilla vinsælda um allan heim og hafa frægir einstaklingar á borð við Elon Musk notað lyfið.
Sumir hafa þó upplifað miklar aukaverkanir eins og ógleði og uppköst og sýna rannsóknir einnig að sjúklingar eigi oft til með að þyngjast á ný eftir að hafa lokið meðferð.