Nox Medical ehf. hagnaðist um rúmlega 9,7 milljónir evra á síðasta ári, eða sem nemur um 1,4 milljörðum króna. Árið áður hagnaðist félagið um rúmlega 5,8 milljónir evra, sem nemur rúmlega 867 milljónum króna og jókst hagnaðurinn því um 67% á milli áranna 2023 og 2024. Rekstrartekjur námu 38 milljónum evra, eða tæplega 5,7 milljörðum króna, og jukust um rúmlega 12,1% á milli ára. Framlegð jókst lítillega og var um 71% af tekjum eða 27 milljónir evra, samanborið við 23,8 milljónir evra árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 10,1 milljón evra, samanborið við 8,6 milljónir evra árið áður.

Eignir félagsins námu 54,4 milljónum evra og jukust um 35,3% frá fyrra ári og eigið fé nam 43,4 milljónum evra um síðustu áramót og jókst um 28,8%. Meðalfjöldi ársverka á árinu 2024 var 102 samanborið við 94 ársverk á fyrra ári. Engar langtímaskuldir við lánastofnanir hvíla á félaginu.

Verulegur vöxtur enn á ný

Nox Medical þróar, framleiðir og selur í yfir 50 löndum lækningatækjalausnir sem eru notaðar af læknum og heilbrigðisstarfsfólki til að mæla lífsmörk í svefni, greina og lækna svefnraskanir og svefnsjúkdóma. Félagið hefur einnig bein umsvif í Norður-Ameríku í gegnum systurfélög en rekstartekjur þeirra námu 18,2 milljónum Bandaríkjadala eða um 2,5 milljörðum króna og jukust um 10% á milli ára.

Nýsköpun og öflugt rannsóknar- og þróunarstarf eru að sögn Huldu Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra Nox Medical, lykilstoðir í starfsemi Nox Medical og grundvöllur sterkrar framtíðarsýnar félagsins. Frá upphafi hafi félagið lagt ríka áherslu á rannsóknir og þróun lækningatækjalausna til að einfalda svefnrannsóknir með þægindi sjúklingsins að leiðarljósi, ásamt svefnrannsóknum á heimilum sjúklinga. Stjórnendur og stofnendur félagsins hafi ávallt litið svo á að slíkar rannsóknir eigi ekki aðeins að mæla sömu lífeðlisfræðilegu merki og rannsóknir í sjúkrahúsum, heldur jafnvel fara fram úr þeim.

Hulda kveðst ánægð með rekstrarniðurstöðu síðasta árs. Á árinu 2024 hafi enn og aftur orðið verulegur vöxtur á starfsemi félagsins, fyrst og fremst vegna aukinnar eftirspurnar eftir vörum þess á öllum mörkuðum og áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. Þessi vöxtur hafi verið knúinn áfram af ýmsum þáttum, þar á meðal sífelldri þróun þeirra lausna sem Nox Medical er með á markaði, öflugri markaðssetningu, aukinni markaðshlutdeild á alþjóðavísu og sterku sambandi við helstu dreifingaraðila og viðskiptavini.

„Stofnendur og stjórnendur Nox Medical hafa unnið ötullega að uppbyggingu á félaginu síðustu ár sem byggir undir þann vöxt sem við erum að upplifa. Á sama tíma hefur félagið fjárfest í rannsóknum og þróun, styrkt aðfangakeðjuna til að takast á við vaxandi pólitískan óstöðugleika á alþjóðavísu og styrkt gæðakerfið til þess að takast á við allar þær reglugerðarbreytingar sem fylgir því að setja flóknar lækningatækjalausnir á markað þar sem viðskiptavinir setja strangar kröfur á þær lausnir sem eru innleiddar í heilbrigðiskerfinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.