Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands, segir NTÍ eiga um 11,7 milljarða af Íbúðabréfum.
Fjármálaráðuneytið, sem fer með málefni ÍL-sjóðs, boðaði svokallað skiptiútboð í síðustu viku þar sem eigendum bréfanna – sem gefin voru út af gamla Íbúðalánasjóði, forvera ÍL-sjóðs – verður boðið að skipta flokkunum HFF 34 og HFF 44 fyrir verðbréf í eigu ÍL-sjóðs, sem á markaðsbréf fyrir tæpa 150 milljarða króna, þar af um 60 útgefin af opinberum aðilum.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins höfðu einhverjir eigendur íbúðabréfa óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að fá að skipta þeim fyrir ríkisskuldabréf áður en tilkynnt var um skiptiútboðið.
Í tilkynningu ráðuneytisins kom ekkert fram um fyrirkomulag útboðsins og því liggur ekki fyrir hvort um opið eða fast skiptagengi verður að ræða né þá hvert fast gengi yrði.
Spurður um hvort NTÍ sé líklegri en aðrir til að að taka skiptiútboðinu í ljósi stöðunnar á Reykjanesi og mögulegra útgreiðslna úr NTÍ vegna tjóns í Grindavík, segir Sigurður Kári ákvörðun um það ekki liggja fyrir.
„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það en þarna eru hagsmunir sem við eigum. Ef allt fer á versta veg í Grindavík þá kann að vera að nýta þurfi þau verðmæti sem í þessum bréfum felast,“ segir Sigurður Kári og bætir við að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um hvernig það yrði gert.
„Þegar málið kom upp gerðum við greiningu á okkar hagsmunum og tókum þessi bréf út úr hefðbundinni eignastýringu,“ segir Sigurður um Íbúðabréfin og bætir við að stjórn NTÍ muni væntanlega fjalla um málið fyrr en síðar.
Verðbréfaeign NTÍ í Kauphöllinni um 28 milljarðar
Verðmæti vátryggðra eigna í Grindavík er um 150 milljarðar en eignir NTÍ, að viðbættu fé frá endurtryggjendum, gætu staðið undir um 100 milljarða króna greiðslu. Í lögum er þó heimild fyrir stjórn NTÍ að taka lán með ríkisábyrgð ef þörf er á.
Samkvæmt síðasta ársreikningi NTÍ átti sjóðurinn 55,8 milljarða í lok síðasta árs, og þar af eru skráð verðbréf 52,3 milljarðar. Innlend skuldabréf mynda meira en helming eigna en þau námu 26,1 milljarði.
Af verðbréfaeign NTÍ eru 27,8 milljarðar skráðir í Kauphöll Íslands, en „önnur skráð verðbréf“, sem ætla má að séu þá erlend, nema 24,4 milljörðum.
Erlendu bréfin skiptast svo í skuldabréf að andvirði 12,3 milljarðar króna, hlutabréf upp á 2,8 milljarða og tæpa 8 milljarða í hlutdeildarskírteinum. Innlend hlutabréf námu 1,7 milljörðum.
Ljóst er að NTÍ mun þurfa að koma hluta safnsins í verð til að standa undir tjóninu í Grindavík en nú þegar eru fjölmargar fasteignir verulega skemmdar.