Sigurður Kári Kristjáns­son, stjórnar­for­maður Náttúru­ham­fara­tryggingar Ís­lands, segir NTÍ eiga um 11,7 milljarða af Í­búða­bréfum.

Fjár­mála­ráðu­neytið, sem fer með mál­efni ÍL-sjóðs, boðaði svo­kallað skipti­út­boð í síðustu viku þar sem eigendum bréfanna – sem gefin voru út af gamla Íbúðalánasjóði, forvera ÍL-sjóðs – verður boðið að skipta flokkunum HFF 34 og HFF 44 fyrir verð­bréf í eigu ÍL-sjóðs, sem á markaðsbréf fyrir tæpa 150 milljarða króna, þar af um 60 útgefin af opinberum aðilum.

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins höfðu ein­hverjir eig­endur í­búða­bréfa óskað eftir því við fjár­mála­ráðu­neytið að fá að skipta þeim fyrir ríkis­skulda­bréf áður en til­kynnt var um skipti­útboðið.

Í til­kynningu ráðu­neytisins kom ekkert fram um fyrir­komu­lag út­boðsins og því liggur ekki fyrir hvort um opið eða fast skipta­gengi verður að ræða né þá hvert fast gengi yrði.

Spurður um hvort NTÍ sé lík­legri en aðrir til að að taka skipti­út­boðinu í ljósi stöðunnar á Reykja­nesi og mögu­legra útgreiðslna úr NTÍ vegna tjóns í Grinda­vík, segir Sigurður Kári á­kvörðun um það ekki liggja fyrir.

„Það hefur ekki verið tekin á­kvörðun um það en þarna eru hags­munir sem við eigum. Ef allt fer á versta veg í Grinda­vík þá kann að vera að nýta þurfi þau verð­mæti sem í þessum bréfum felast,“ segir Sigurður Kári og bætir við að ekki hafi verið tekin nein á­kvörðun um hvernig það yrði gert.

„Þegar málið kom upp gerðum við greiningu á okkar hags­munum og tókum þessi bréf út úr hefð­bundinni eigna­stýringu,“ segir Sigurður um Íbúðabréfin og bætir við að stjórn NTÍ muni væntanlega fjalla um málið fyrr en síðar.

Verðbréfaeign NTÍ í Kauphöllinni um 28 milljarðar

Verð­mæti vá­tryggðra eigna í Grinda­vík er um 150 milljarðar en eignir NTÍ, að við­bættu fé frá endur­tryggj­endum, gætu staðið undir um 100 milljarða króna greiðslu. Í lögum er þó heimild fyrir stjórn NTÍ að taka lán með ríkis­á­byrgð ef þörf er á.

Sam­kvæmt síðasta árs­reikningi NTÍ átti sjóðurinn 55,8 milljarða í lok síðasta árs, og þar af eru skráð verð­bréf 52,3 milljarðar. Inn­lend skulda­bréf mynda meira en helming eigna en þau námu 26,1 milljarði.

Af verð­bréfa­eign NTÍ eru 27,8 milljarðar skráðir í Kaup­höll Ís­lands, en „önnur skráð verð­bréf“, sem ætla má að séu þá erlend, nema 24,4 milljörðum.

Erlendu bréfin skiptast svo í skulda­bréf að and­virði 12,3 milljarðar króna, hlutabréf upp á 2,8 milljarða og tæpa 8 milljarða í hlutdeildarskírteinum. Inn­lend hluta­bréf námu 1,7 milljörðum.

Ljóst er að NTÍ mun þurfa að koma hluta safnsins í verð til að standa undir tjóninu í Grindavík en nú þegar eru fjölmargar fasteignir verulega skemmdar.