Nvidia hefur fengið staðfestingu frá ríkisstjórn Donalds Trumps um að tæknifyrirtækið muni fá heimild til að selja H2O-gervigreindarörgjörva sína í Kína. Á vef WSJ segir að staðfestingin hafi komið nokkrum dögum eftir að Jensen Huang, forstjóri Nvidia, fundaði með Trump.

Bandaríska viðskiptaráðuneytið setti takmarkanir á sölu örgjörva til Kína í apríl sem leiddi til fleiri milljarða dala taps hjá Nvidia.

Forstjórinn er nú staddur í heimsókn í Peking og sagðist mjög ánægður með ákvörðun bandarísku ríkisstjórnarinnar. Hlutabréf Nvidia hækkuðu jafnframt um meira en 4% í morgun fyrir opnun markaðar.

Nvidia hefur upplifað töluverða velgengni á undanförnum vikum en það varð til að mynda nýlega fyrsta fyrirtækið til að ná því markmiði að vera metið á meira en fjórar billjónir dala. Ákvörðun bandarískra stjórnvalda mun koma til með að styrkja stöðu fyrirtækisins enn frekar en Nvidia getur þó enn ekki selt fullkomnustu örgjörva sína til Kína.