Ný lögmannsstofa hefur tekið til starfa að Dalshrauni 5 í Hafnarfirði undir nafninu Lögfræðiþjónusta Hafnarfjarðar.

Eigandi stofunnar er Elísabet Pétursdóttir lögmaður, sem starfaði í tæpan áratug í Stjórnarráðinu áður en hún opnaði lögmannsstofu í sinni heimabyggð. Framkvæmdarstjóri stofunnar er Sigmundur Ingi Sigurðsson, lögfræðingur.

„Ástæða þess að við fórum í þennan rekstur er að okkur langaði til að starfa við það sem við gerum best í heimabyggð. Í mínum huga er áríðandi að Hafnfirðingar geti sótt alla helstu þjónustu í bænum, þar á meðal lögmannsþjónustu. Kynslóðirnar á undan okkur og þar á undan hafa boðið upp á þessa þjónustu hér í bænum og að mínu mati er mikilvægt fyrir ört stækkandi bæjarfélag að hér starfi öflugar lögmannsstofur.“ segir Elísabet um aðdraganda ákvörðunarinnar að opna lögmannsstofu í bænum.

Á stofunni er veitt alhliða lögfræðiþjónusta og ráðgjöf til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félaga, þar á meðal húsfélaga. Í tilkynningu segir að lögfræðingar stofunnar búi yfir mikilli sérfræðiþekkingu á ýmsum málaflokkum, svo sem á mannréttindum, stjórnsýslurétti, fjölskyldurétti, barnarétti, og vinnurétti.