Á mánudaginn kemur munu Íslendingar halda Bolludaginn hátíðlegan og vinna nú starfsmenn í bakaríum landsins hörðum höndum að því að undirbúa daginn. Mörg bakarí eru þegar byrjuð að selja bollur en mikil sala myndast í kringum daginn á hverju ári.

Sigurbjörg Rósa Sigþórsdóttir, framkvæmdastjóri Bakarameistarans, segir að árið hafi byrjað mjög vel en reksturinn sé mjög svipaður frá ári til árs. Bakarameistarinn hefur ákveðið að leggja sitt af mörkum í baráttunni við verðbólguna og bjóða upp sömu verð og í fyrra á öllum bollum.

„Við ákváðum að halda aftur af verðhækkunum þrátt fyrir að hafa fengið á okkur hækkanir. Við náðum góðum samningum við okkar birgja. Vonandi næst samstaða um hóflegar launahækkanir sem leiða til lægri vaxta og verðbólgu. Þar verða allir að leggjast á eitt, ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur.

Þá hefur árið byrjað skemmtilega en Bakarameistarinn sigraði nýlega keppni á vegum Landssambands bakarameistara um brauð ársins sem fór í sölu á Bóndadaginn.

„Það var okkar maður Eyjólfur Hafsteinsson sem vann með langhefað súrdeigsbrauð sem inniheldur meðal annars íslenskt perlubygg frá Móður jörð og chia-graut,“ segir Sigurbjörg og bætir við að Bakarameistarinn bjóði nú einnig upp á þrumubrauð sem er án glúteins fyrir þá sem eru að taka á því í ræktinni og eru ketó eða vegan.

Hún segir að Bolludagurinn sé besti dagur ársins hjá bökurum sem láta sér þó ekki leiðast þegar kemur að undirbúningi. Starfsmenn séu á vakt alla helgina og þá er mikil nætur- og yfirvinna í gangi.

„Það er bolludagshelgi framundan og mikið líf og fjör í verslunum okkar. Á mánudaginn bætast svo við fyrirtæki landsins sem halda bolludaginn hátíðlegan. Við byrjum kl. 11 á sunnudeginum þannig að allt sé klárt þegar fólk mætir og nælir sér í bollur,“ segir Sigurbjörg.