Frumsýningarhelgi Wish, nýjustu teiknimyndarinnar úr smiðju afþreyingarrisans Disney, skilaði minni tekjum í kassann um nýliðna frumsýningarhelgi vestanhafs en margir höfðu reiknað með. Frumsýningarhelgin var í lengri kantinum vegna þakkargjörðarhátíðarinnar. Myndin halaði inn 19,5 milljónir dala í gegnum miðasölu yfir þakkargjörðarhelgina og en tvær aðrar kvikmyndir sem voru frumsýndar nýverið höluðu inn meiri tekjum þessa sömu helgi. WSJ greinir frá.
Umræddar myndir voru nýjasta Hunger Games myndin, með 28,8 milljóna dala miðasölutekjur, en myndin var frumsýnd föstudaginn 17. nóvember. Þá skilaði stórmyndin Napoleon, úr smiðju Apple, 20,4 milljónum dala. Myndin hefur alls þénað 32,5 milljónir dala síðan hún var frumsýnd sl. miðvikudag.
Wish var einnig frumsýnd sl. miðvikudag og hefur kvikmyndin þénað 31,7 milljónir dala í gegnum miðasölu þá fimm daga sem hún hefur verið í sýningu.