Umræða um orkuskort hefur verið áberandi undanfarin misseri og var greint frá því á þessum vettvangi í síðustu viku að margföld umframeftirspurn væri eftir langtímaorku. Þá hefur engin orka verið fáanleg eftir árið 2026.

Undanfarin ár hafa nokkrir aðilar boðað umfangsmikla uppbyggingu landeldis hér á landi og nemur heildarfjárfesting til þessa tugum milljörðum króna. Um er að ræða orkufrekan iðnað en helstu fyrirtækin hafa þegar gert samninga um kaup á raforku.

Landsvirkjun hefur gert samninga við First Water, áður Landeldi, og Laxey.

First Water vinnur að uppbyggingu laxeldis í Þorlákshöfn en samningur þeirra við Landsvirkjun kveður á um kaup á allt að 20 MW af raforku. Laxey byggir þá upp laxeldi í Vestmannaeyjum en samningur þeirra kveður á um allt að 22 MW af raforku, með fyrirvara um aukna orkuvinnslu.

HS Orka hefur einnig samið við Samherja fiskeldi um uppbyggingu í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Rafaflsþörf stöðvarinnar verður um 16 MW þegar uppbyggingu verður lokið.

Að lokum hefur Orka náttúrunnar gert samninga við Thor Landeldi og GeoSalmo en bæði félög stefna á uppbyggingu laxeldis við Þorlákshöfn.

Samningur ON og GeoSalmo kveður á um kaup á allt að 28 MW af raforku. Thor Landeldi hefur þá tryggt sér 5 MW af raforku auk þess sem viljayfirlýsing um aukningu upp að 10 MW hefur verið undirrituð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.