Nýr sportbar opnaði í Minneapolis í Bandaríkjunum í síðustu viku en hann er frábrugðinn mörgum öðrum sportbörum að því leytinu til að hann sýnir aðeins íþróttaleiki kvennadeilda.
A Bar of Their Own opnaði föstudaginn 1. mars en hann er staðsettur í korters keyrslu frá alþjóðaflugvelli Minneapolis – St. Paul.
Hugmyndin að staðnum kviknaði eftir að íþróttaaðdáandinn og eigandi barsins, Jullian Hiscock, hafði eytt mörgum árum í að biðla til barþjóna á sportbörum Minneapolis um að skipta yfir á kvennaleiki í von um að áhugi myndi kvikna meðal viðskiptavina.
Jullian segir í samtali við Viðskiptablaðið að viðbrögðin við nýja barnum hafi verið langt umfram vonir en barinn er jafnframt sá fyrsti sinnar tegundar í miðríkjum Bandaríkjanna.
„Við afgreiddum meira en 2.500 viðskiptavini fyrstu helgina okkar og það var nánast biðröð inn á staðinn alla helgina! Það er augljóst að stuðningsmenn kvennaíþrótta eru spenntir fyrir stað sem setur liðin þeirra í fyrsta sæti,“ segir Jillian.
Inni á barnum má finna myndir af þjóðþekktum íþróttahetjum ásamt 12 sjónvarpsskjáum. Á veggnum er jafnframt áritað plakat frá kvennadeild körfuboltaliðsins Rockford Peaches en liðið var innblástur kvikmyndarinnar A League of Their Own með Tom Hanks og Geena Davis.
Jillian hefur áður grínast með að segja að allir sportbarir í Minneapolis væru „karlaíþróttasportbarir“ en að þeir væru bara ekki kallaðir það. Hún segist heldur ekki hafa áhyggjur af framtíð kvennaíþrótta þegar kemur að fjármálum en samkvæmt Deloitte Sports Business Group er áætlað að kvennaíþróttir muni skila 1,28 milljörðum dala í tekjum fyrir 2024.
Sportbarir sem einblína á kvennaíþróttir eru staðsettir á víð og dreif um Bandaríkin en fyrir tveimur árum í Portland í Oregon-ríki opnaði barinn The Sports Bra. Jillian segir að fleiri staðir munu koma til með að líta dagsins ljós á næstu árum.
„Ég hef verið í sambandi við eigendur Babe‘s, sem er sportbar fyrir konur sem mun brátt opna í Chicago.“