Íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið Akthelia hefur náð athyglisverðum árangri í lyfjaþróun sem byggir á rannsóknum á bakteríudrepandi peptíðum. Um er að ræða stuttar prótínkeðjur sem gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfi mannsins.
Lyfjaþróun félagsins byggir á vinnu Guðmundar Hrafns Guðmundssonar, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Eiríks Steingrímssonar, prófessors við Læknadeild, ásamt samstarfsfélögum þeirra við Karolinskastofnunina í Svíþjóð.
Félagið er með einkaleyfi á efnaflokki sem örvar meðfædda ónæmiskerfið og hefur jafnframt bólgueyðandi áhrif, sem gerir lyfin gagnleg gegn fjölbreyttum bakteríusýkingum og bólgusjúkdómum eins og Crohn’s sjúkdómnum.
Akthelia er að hefja fjármögnunarferli til að fjármagna klínískar rannsóknir, á þróun nýs lyfs sem hefur sýnt lofandi niðurstöður í rannsóknum á dýrum.
Félagið hefur verið fjármagnað með hlutafé frá hluthöfum og af Rannís. Aðspurður út í nýsköpunarumhverfið á Íslandi lýsir Egill Másson, framkvæmdastjóri félagsins, því sem mjög góðu. Það hafi batnað til muna á undanförnum áratugum.
„Efling Tækniþróunarsjóðs og skattafrádrátturinn hafa verið lykilþættir í því að bæta aðstæður til nýsköpunar hér á landi, og ég tel að aðstæður séu mjög góðar fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi.
Tækniþróunarsjóður hefur þannig styrkt þróun Akthelia bæði hvað varðar aukaverkanir krabbameinsmeðferðar sem og notkunina í sárameðferð.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.