Nýtt baðlóð verður opnað í sumar á Suðurlandi undir heitinu Laugarás Lagoon en baðlónið verður staðsett við brúna sem liggur yfir Hvítá við byggðina í Laugarási. Í tilkynningu segir að greint verði frá nákvæmri opnunardagsetningu í vor.

Baðlónið verður á tveimur hæðum með fossi sem hægt verður að ganga í gegnum og má þar einnig finna tvær sánur, kalda og heita laug og útisturtur.

„Við hlökkum gríðarlega til að opna baðstaðinn fyrir gestum í sumar og bjóða fólk velkomið í fallega þorpið í Laugarási. Frá baðlóninu geta gestir notið staðarins í einstakri nálægð við náttúruna og sótt sér ferska matarupplifun úr nærliggjandi sveitum á veitingastaðnum Ylju,“ segir Bryndís Björnsdóttir framkvæmdastjóri.

Veitingastaðurinn Ylja, sem matreiðslumaðurinn Gísli Matthías Auðunsson fer fyrir, verður einnig á staðnum en hann mun koma til með að nýta afurðir frá bændum á Suðurlandi. Gísli rekur meðal annars Slippinn í Vestmannaeyjum og Skál í miðborg Reykjavíkur.