„Mér finnst hafa verið alltof mikið mál gert úr tjóni þeirra sem myndu þurfa að fá uppgjör, vegna þess að þeir fá bréf sem þeir áttu von á að fá greidd yfir langan tíma gerð upp með ríkisábyrgð á þeim tímapunkti,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um kröfuhafa Íbúðabréfanna svokölluðu.
Komi til slíks uppgjörs segir hann það verða undir þeim komið næstu rúmu tvo áratugina – eða þar til síðasta Íbúðabréfið hefði átt að vera uppgreitt að fullu – hvernig þeim farnist við að ávaxta þá fjármuni og hvernig sú ávöxtun muni standast samanburð við skuldabréfin.
„Ef til slita kemur fá þeir alla summuna greidda í einu lagi. Þeir verða þá bara að nota þessi rúmu 20 ár sem eftir hefðu lifað af þeim bréfum til þess að vinna til baka það sem þeir telja sig hafa misst í verðtryggðum skuldabréfum sjóðsins. Það er ekki fyrr en við fáum niðurstöðu um hvernig það gekk sem við getum fullyrt hvert tjónið varð, ef eitthvað, fyrir viðkomandi kröfuhafa.“
Verði sjálfir að bera ábyrgð á verðlagningu bréfanna
Bjarni segir lífeyrissjóði og aðra markaðsaðila sjálfa verða að bera ábyrgð á því hvernig bréfin hafi verið verðmetin og verðlögð hingað til. Allt frá útgáfu bréfanna hafi verið alveg skýrt að ríkið væri ekki í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfunum.
„Þeir bera ábyrgð á því bara hver fyrir sig. Einföld ríkisábyrgð er bara einföld ríkisábyrgð. Það hvernig markaðsaðilar hafa metið og bókfært þessi bréf er eitthvað sem ég get ekki borið ábyrgð á, hvað þá hvaða loforð þeir hafa gefið sínum lífeyrisþegum. Ég held að við séum alls ekki komin með yfirlit yfir það hvernig það myndi fara,“ segir Bjarni og vísar til opinberra gagna sem fyrir hafa legið.
„Það verður bara hver að svara fyrir sig hvernig hann hélt að yrði tekið á þessu máli og hvernig hver og einn skildi ríkisábyrgðina sjálfa.“
Nánar er rætt við Bjarna í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun.