Skjáirnir þekja um 130 fermetra í flugstöðinni og þeir munu miðla upplýsingum og auglýsingaefni til komufarþega í Leifsstöð.
Hljóð- og myndlausnir Ofar (áður Origo) hefur lokið uppsetningu á 18 LED skjám í samstarfi við Isavia, í nýjum komusal og töskusal í austurálmu Keflavíkurflugvallar. Í vetur hefur komusalurinn fengið verulega upplyftingu til að bæta upplifun ferðalanga á leið sinni til Íslands.
LED skjáirnir koma frá leiðandi framleiðandanum Sharp NEC Display Solutions en Ofar er umboðsaðili Sharp NEC á Íslandi og sinnir meðal annars ráðgjöf, uppsetningu, kennslu og viðhaldi á skjáskiltum og afspilunarlausnum.
LED skjáirnir eru með yfir 48 milljón pixla og nýta sér svokallaða flip-chip SMD tækni sem tryggir hágæða sjónræna upplifun með djúpum svörtum litum og lægri orkunotkun.

Austurálma kallaði á breyttar þarfir í búnaði
Áætlað er að um 8,5 milljón farþega hafi farið um Keflavíkurflugvöll á árinu 2024, og því var nauðsynlegt að skapa áhrifaríkan og orkusparandi miðil til samskipta sem myndi ná til allra ferðamanna sem koma til landsins.
Bjarni Sigurðsson, forstöðumaður notendaþjónustu hjá Isavia segir að margir aðilar innan KEF hafi komið að borðinu til að mynda sameiginleg sýn á þær kröfur sem alþjóðaflugvöllur þyrfti hafa að leiðarljósi á LED búnaði. Eftir mikla yfirlegu og þekkingaröflun var að lokum ráðist í útboð og fór svo að tilboði Hljóð- og myndlausna Origo, sem nú heitir Ofar, var tekið.
„Það helsta sem kröfurnar litu að voru rafsegultruflanir, rafmagnsnotkun, eldvarnar staðlar, líftími, sjálfbærni, verð, ábyrgð, afhendingartími og að sjálfsögðu tæknilegar kröfur sem settar voru í tengslum við gæði, þjónustu og áreiðanleika búnaðar“, segir Bjarni Sigurðsson. „Skjálausnirnar frá Ofar uppfyllti þessar kröfur best“.

Afhending og uppsetning gekk vel
„Við í KEF vorum mjög hrifin af því hvernig afhendingin og uppsetningin fór fram og var skipulögð. Skjáir og annar nauðsynlegur búnaður komu til landsins innan áætlaðs afhendingartíma,“ segir Ómar Tryggvason, viðskiptastjóri verslana hjá Isavia.
„Starfsfólk Ofar vann náið með verkefnastjórum og flugrekstrareiningum í KEF við að skipuleggja og framkvæma uppsetningu. Þetta var talsverð áskorun þar sem ekki var boðlegt að missa nema eitt töskuband úr rekstri í einu. Allt gekk þetta virkilega vel.“
Búnaður með langtímaendingu
„Þessi tækni tryggir ekki einungis framúrskarandi myndgæði heldur einnig langtímaendingu og hagkvæmni yfir líftíma vörunnar. Með réttum tækjabúnaði er Isavia að hámarka ávöxtun á fjárfestingu sinni og bjóða fyrirtækjum og vörumerkjum upp á sterkan miðil til að ná til farþega við komu þeirra til landsins“, segir Knútur Rúnarsson, hópstjóri Hljóð- og myndlausna hjá Ofar.
„Verkefnið er ekki aðeins tæknilegt afrek, heldur sýnir það hvernig nýsköpun og gæði geta lyft stafrænum samskiptum á hærra plan, þannig að sagan um Ísland sé sögð á besta mögulega hátt við hvern og einn ferðamann.“


