Notendur Emblu geta nú frá og með deginum í gær spjallað ókeypis við gervigreindina GPT-4 á íslensku. Virknin verður opin til prófunar í eina viku og verður hverjum notanda boðið upp á 15 gervigreindar-fyrirspurnir á tímabilinu.
Það var íslenska máltæknifyrirtækið Miðeind sem stóð fyrir kynningu á gervigreindar-Emblu á opnu húsi í gær í Eddu, nýju húsi íslenskunnar að Arngrímsgötu 5.
Miðeind hefur verið í samstarfi við OpenAI undanfarna mánuði um að sérþjálfa nýjasta risamállíkan OpenAI, GPT-4 fyrir íslensku. Að sögn fyrirtækisins má sjá stórbætta íslenskukunnáttu risamállíkans GPT-4 í kjölfar samstarfsins og vænta má enn betri niðurstaðna á næstu mánuðum.