Samtök iðnaðarins telja að of lítil áhersla sé lögð á uppbyggingu séreignarhúsnæðis í rammasamkomulagi stjórnvalda um uppbyggingu 35.000 íbúða. Samtökin segir ljóst að meginþorri landsmanna kýs að búa í eigin húsnæði en áherslur stjórnvalda hafa hins vegar verið á uppbyggingu íbúða með aðkomu hins opinbera og svo verður áfram miðað við stefnuáherslur.
„Ef stjórnvöld, þ.e. ríki og sveitarfélög, leggja megináherslu á slíka uppbyggingu þá er framleiðslugeta markaðarins nýtt þar en ekki í uppbyggingu séreignarhúsnæðis þar sem eftirspurnin er,“ segir í greiningu SI á íbúðamarkaði.
Samtökin segja ljóst að leiguíbúðum með opinberum stuðningi muni fjölga meira hlutfallslega en íbúðum fyrir séreignamarkað á tíma rammasamkomulags stjórnvalda sem var undirritaður á síðasta ári og nær til ársins 2032.
„Á tímabilinu er í samkomulaginu gert ráð fyrir að íbúðum í séreign fjölgi um tæp 19% og leiguhúsnæði með aðkomu hins opinbera um ríflega 85%, þ.e. leiguíbúðir með aðkomu hins opinbera fara úr 9.500 í 17.600. Þá mun hlutfall leiguhúsnæðis á vegum hins opinbera fara úr því að vera 6% íbúðamarkaðarins í 9% á tíma samningsins.“
En á þeim markaði er skortur á íbúðum og mikil uppbyggingarþörf.
„Fólk vill færa sig úr leiguhúsnæði yfir í séreignarhúsnæði og ættu uppbyggingaráform og áherslur stjórnvalda að taka mið af því. Uppbyggingaráform virðast stefna í öfuga átt þar sem félagslegt húsnæði vex í fjölda og sem hlutfall af íbúðamarkaðinum ef markmið samningsins ganga eftir. Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að stjórnvöld, ríki og stærstu sveitarfélög landsins, breyti þessu og stígi inn með aðgerðum til að tryggja að fjöldi og samsetning fullbúinna íbúða sem koma inn á íbúðamarkaðinn á næstu árum verði í takti við þarfir og óskir landsmanna.“
Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verður fjöldi nýbyggðra íbúða á fyrstu þremur árum samningsins undir þörf og markmiðum sem nemur 4.360 íbúðum samanlagt.
„Þá aukist ójafnvægið á milli fjölda fullbúinna íbúða og áætlaðrar þarfar eftir því sem líði á spátímann. Líklegt er að munurinn verði mestur í uppbyggingu íbúða fyrir séreignamarkað.“
Ríflega 72% segjast vera leigjendur af nauðsyn
Samtökin benda á könnun sem Prósent máli sínu til stuðning en fyrirtækið hefur á undanförnum árum gert á meðal leigjenda. Þar kemur fram að ekki nema um 10% þeirra sem eru á leigumarkaði velja að vera þar.
Ríflega 72% segjast vera leigjendur af nauðsyn. Hlutfallið hefur farið hækkandi síðustu ár en árið 2019 var það 57%. Ef þeir leigjendur sem myndu frekar vilja eiga en leigja fengju ósk sína uppfyllta myndi hlutfall leigumarkaðarins fara niður í 5,8%.
Ef einnig er horft til fjárhagslegrar getu fækkar þeim sem geta eignast eigið húsnæði og verða að leigja en þannig mætti setja upp sviðsmynd um húsnæðismarkað í jafnvægi þar sem horft er til vilja fólks og fjárhagslegrar getu þannig að 85% markaðarins væri eigin húsnæði og 15% leiguhúsnæði sem að hluta til væri opinbert leiguhúsnæði.