Sam­tök iðnaðarins telja að of lítil á­hersla sé lögð á upp­byggingu sér­eignar­hús­næðis í ramma­sam­komu­lagi stjórn­valda um upp­byggingu 35.000 í­búða. Sam­tökin segir ljóst að megin­þorri lands­manna kýs að búa í eigin hús­næði en á­herslur stjórn­valda hafa hins vegar verið á upp­byggingu í­búða með að­komu hins opin­bera og svo verður á­fram miðað við stefnu­á­herslur.

„Ef stjórn­völd, þ.e. ríki og sveitar­fé­lög, leggja megin­á­herslu á slíka upp­byggingu þá er fram­leiðslu­geta markaðarins nýtt þar en ekki í upp­byggingu sér­eignar­hús­næðis þar sem eftir­spurnin er,“ segir í greiningu SI á í­búða­markaði.

Sam­tökin segja ljóst að leigu­í­búðum með opin­berum stuðningi muni fjölga meira hlut­falls­lega en í­búðum fyrir sér­eigna­markað á tíma ramma­sam­komu­lags stjórn­valda sem var undir­ritaður á síðasta ári og nær til ársins 2032.

„Á tíma­bilinu er í sam­komu­laginu gert ráð fyrir að í­búðum í sér­eign fjölgi um tæp 19% og leigu­hús­næði með að­komu hins opin­bera um ríf­lega 85%, þ.e. leigu­í­búðir með að­komu hins opin­bera fara úr 9.500 í 17.600. Þá mun hlut­fall leigu­hús­næðis á vegum hins opin­bera fara úr því að vera 6% í­búða­markaðarins í 9% á tíma samningsins.“

En á þeim markaði er skortur á í­búðum og mikil upp­byggingar­þörf.

„Fólk vill færa sig úr leigu­hús­næði yfir í sér­eignar­hús­næði og ættu upp­byggingar­á­form og á­herslur stjórn­valda að taka mið af því. Upp­byggingar­á­form virðast stefna í öfuga átt þar sem fé­lags­legt hús­næði vex í fjölda og sem hlut­fall af í­búða­markaðinum ef mark­mið samningsins ganga eftir. Sam­tök iðnaðarins telja mikil­vægt að stjórn­völd, ríki og stærstu sveitar­fé­lög landsins, breyti þessu og stígi inn með að­gerðum til að tryggja að fjöldi og sam­setning full­búinna í­búða sem koma inn á í­búða­markaðinn á næstu árum verði í takti við þarfir og óskir lands­manna.“

Sam­kvæmt Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun verður fjöldi ný­byggðra í­búða á fyrstu þremur árum samningsins undir þörf og mark­miðum sem nemur 4.360 í­búðum saman­lagt.
„Þá aukist ó­jafn­vægið á milli fjölda full­búinna í­búða og á­ætlaðrar þarfar eftir því sem líði á spá­tímann. Lík­legt er að munurinn verði mestur í upp­byggingu í­búða fyrir sér­eigna­markað.“

Ríf­lega 72% segjast vera leigj­endur af nauð­syn


Sam­tökin benda ­á könnun sem Prósent máli sínu til stuðning en fyrir­tækið hefur á undan­förnum árum gert á meðal leigj­enda. Þar kemur fram að ekki nema um 10% þeirra sem eru á leigu­markaði velja að vera þar.

Ríf­lega 72% segjast vera leigj­endur af nauð­syn. Hlut­fallið hefur farið hækkandi síðustu ár en árið 2019 var það 57%. Ef þeir leigj­endur sem myndu frekar vilja eiga en leigja fengju ósk sína upp­fyllta myndi hlut­fall leigu­markaðarins fara niður í 5,8%.

Ef einnig er horft til fjár­hags­legrar getu fækkar þeim sem geta eignast eigið hús­næði og verða að leigja en þannig mætti setja upp sviðs­mynd um hús­næðis­markað í jafn­vægi þar sem horft er til vilja fólks og fjár­hags­legrar getu þannig að 85% markaðarins væri eigin hús­næði og 15% leigu­hús­næði sem að hluta til væri opin­bert leigu­hús­næði.