Ný metanafgreiðsla á tveimur dælum hefur verið opnuð á þjónustustöð Olís í Mjódd. Metanið er framleitt í Álfsnesi og unnið úr hauggasi sem verður til úr lífrænum úrgangi sem þar er urðaður. Við vinnsluna verður til vistvænt islenskt eldsneyti.

Fram kemur í tilkynningu frá Olís að metaneldsneyti hafi verið notað til að knýja bíla á Íslandi frá árinu 2000. Eldsneytið er 95-98% hreint metan.

Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Ó. Halldórssyni, framkvæmdastjóra smásölueldsneytissviðs Olís, að opnun metanafgreiðslunnar sé liður í aukinni þjónustu við notendur metanbifreiða sem hafi farið fjölgandi á Íslandi.

„Það er auðvitað þjóðhagslegur ávinningur að nota íslenskt eldsneyti auk þess sem metan er mun umhverfisvænna en annað eldsneyti. Olís stígur með því enn eitt græna skrefið en félagið hefur um árabil unnið skipulega að umhverfis- og uppgræðslumálum hér á landi. Félagið kynnti í vor fyrst íslenskra olíufyrirtækja díselolíu blandaða með VLO, eða vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu, sem er hreinna og umhverfisvænna díseleldsneyti en þekkst hefur,“ segir hann.