Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað talsvert í dag. Verð á Brent og WTI hráolíu náði sínu lægsta stigi frá því í apríl 2021, að því er segir í frétt Reuters.

Brent og WTI lækkuðu um 10,9% og 10,6% hvort um sig í síðustu viku. Verð á tunnu af Brent hráolíu hefur lækkað um 1,7% og stendur í 64,5 dölum þegar fréttin er skrifuð. Verðið fór lægst niður í 62,51 dali í dag.

Olíuverð lækkaði um 7% á föstudaginn sem var m.a. rakið til þess að kínversk stjórnvöld hækkuðu tolla á innfluttar vörur frá Bandaríkjunum. Fjárfestar óttast nú mögulegs samdráttar í heimshagkerfinu vegna tollastríðsins.

Reuters greindi frá því í morgun að greinandi Goldman Sachs hefði fært upp áætlaðar líkur á að bandaríska hagkerfið muni dragast saman úr 35% í 45% vegna tollana sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um í síðustu viku. Goldman færði matið úr 20% í 35% í byrjun síðustu viku.

Jafnframt færði bankinn niður spá sína um olíuverð á næsta ári um 4 dali. Hann gerir nú ráð fyrir að meðalverð á tunnu af Brent verði um 58 dalir og WTI um 55 dalir á næsta ári.

Um helgina lækkaði Saudi-Aramco, ríkisolíufyrirtæki Sádi-Arabíu, verð sitt fyrir asíska kaupendur og er það nú svipað lágt og fyrir fjórum árum síðan. Sumir greinendur telja Sádana horfa til þess að auka markaðshlutdeild sína.

Átta aðildarríki Opec+, þar á meðal Sádi-Arabía og Rússland, tilkynntu í síðustu viku að þau hyggjast þrefalda áformaða framleiðsluaukningu í maí og vinda þannig hraðar ofan af fyrri skerðingum. Opec+ ríkin áforma þannig að auka framleiðslu í maí um 411 þúsund tunnur á dag, samanborið við fyrra viðmið um 122 þúsund tunnur á dag.