Greiningaraðilar hjá JP Morgan fjárfestingarbanka telja að verð á tunnu af Brent hráolíu gæti farið upp í 185 dali á þessu ári, ef framboðstruflanir á rússneskri hráolíu halda áfram. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg .
Bankinn spáir því þó að verð á tunnu af Brent hráolíu fari hægt og rólega að lækka eftir því sem á árið líður og muni færast nær 90 dölum á tunnu á fjórða ársfjórðungi.
Verð á Brent hráolíu, þeirri olíu sem Evrópubúar nota, stendur í 115 dölum á tunnu og hefur hækkað um 30% síðastliðinn mánuðinn. Verð á hinni bandarísku WTI hráolíu, sem er að mestu leyti framleidd í Texas ríki, hefur hækkað um 28% síðastliðinn mánuðinn og stendur nú í 113 dölum á tunnu.
Í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hefur fjölmörgum viðskiptaþvingunum verið beitt á hendur Rússum sem hefur leitt til verðhækkana á hrávörum eins og hráolíu. Rússlands er næst stærsta olíuflutningaríki heims og stærsti jarðgasframleiðandi heims. Þannig sjá Rússar Evrópu fyrir um þremur milljónum olíutunna á dag, mest allra ríkja.
Greiningaraðilar á vegum fjárfestingarbankans segja að um 66% af rússneskri olíu finni ekki kaupendur. Nýverið kallaði Joe Biden Bandaríkjaforseti eftir innflutningsbanni á orku frá Rússum. Auk þess hefur alþjóðlega orkustofnunin í París sett fram áætlun um hvernig hægt sé að gera Evrópu minna háða Rússum í orkumálum.