Bandarískir olíuframleiðendur standa frammi fyrir sinni erfiðustu stöðu í mörg ár, eftir að olíuverð hefur fallið hratt vegna tollastríðs Donalds Trumps og óvæntrar framleiðsluaukningar hjá OPEC.
Verðfallið hefur samkvæmt Financial Times skapað óvissu um framtíð óhefðbundinnar olíuframleiðslu í Bandaríkjunum og minnir á stöðuna í faraldrinum 2020.
Verð á bandarísku hráolíunni West Texas Intermediate (WTI) hefur lækkað um 12% frá því Trump kynnti svonefnda „frelsisdagstolla“ á helstu viðskiptalönd Bandaríkjanna. Nú er verð á tunnu komið undir 60 dali sem er lægra en margir framleiðendur í Texas telja nauðsynlegt til að ná endum saman.
„Þetta minnir óþægilega mikið á faraldurinn,“ segir Kirk Edwards, forstjóri Latigo Petroleum í samtali við FT. „Við stöndum frammi fyrir tvöföldu höggi: minnkandi eftirspurn og vaxandi framboði – sérstaklega frá Sádi-Arabíu.“
OPEC tilkynnti nýverið að 400.000 tunnum af olíu verði bætt við daglega framleiðslu. Samhliða tollastríði Bandaríkjanna hefur þessi þróun aukið þrýsting á verð og valdið verulegri óvissu um jafnvægi á markaði.
Taprekstur, niðurskurður og fækkun starfsmanna
Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Rystad Energy þurfa margir bandarískir olíuframleiðendur að fá að minnsta kosti 62 dali á tunnu til að standa undir framleiðslukostnaði, vöxtum og arðgreiðslum. Ef verð helst undir þeim mörkum, gæti þurft að stöðva boranir, leggja niður vinnubúnað og segja starfsfólki upp.
Gengi skráðra olíufyrirtækja hefur einnig lækkað hratt. Occidental Petroleum og Devon Energy hafa tapað yfir 12% af markaðsvirði sínu á aðeins fimm dögum.
„Ef olíuverðið fer niður í 50 dali á tunnu munu helmingi færri fyrirtæki lifa af. Þeir sterku munu gleypa þá veikari með sameiningum og yfirtökum,“ segir Bill Smead, fjárfestingastjóri hjá Smead Capital Management.
Vonbrigði með stefnu Hvíta hússins
Bandarískir olíuframleiðendur, sem margir studdu Trump í forsetakosningunum 2024, hafa lýst vaxandi óánægju með orku- og viðskiptastefnu hans.
Kaes Van’t Hof, forstjóri Diamondback Energy, skrifaði á samfélagsmiðlum: „Þetta er eina atvinnugreinin sem byggði sig upp innanlands, skapaði störf og dró úr viðskiptahalla – og nú er hún sett undir þrýsting.“
Adrian Carrasco hjá Premier Energy Services bendir þó á að margir framleiðendur hafi tryggt sér verð með samningum til sex eða tólf mánaða, sem dragi úr áhrifum í bráð. En hann bendir einnig á að tollar hækki kostnað, t.d. við innflutning á borpípum.
„Ef kostnaðurinn hækkar um 25% en söluverðið stendur í stað, þá neyðast menn einfaldlega til að laga sig að nýjum veruleika,“ segir Carrasco.
Framleiðsla í Bandaríkjunum náði nýlega meti, yfir 13 milljónir tunna á dag.
En greiningaraðilar, m.a. hjá S&P Global, hafa nú dregið verulega úr væntingum og spá jafnvel samdrætti upp á eina milljón tunna á dag ef verð fellur niður í 50 dali.
„Allar vonir um vaxandi eftirspurn hafa gufað upp,“ segir Bill Farren-Price hjá Oxford Institute for Energy Studies.