Hráolíuverð hefur hækkað um meira en 2,5% í morgun eftir fregnir um að Íran sé að undirbúa að gagnárás á Ísrael á næstu dögum.
Leyniþjónusta Ísraels telur að Íran gæti verið að undirbúa að ráðast á Ísrael frá Írak með fjölda dróna og skotflaugum. Samkvæmt fréttaflutningi Axios gæti árásin farið fram fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 5. nóvember næstkomandi.
Í umfjöllun Reuters segir að það kunni einnig að ýta undir olíuverð að auknar líkur eru taldar á því að OPEC+ ríkin gætu frestað áformaðri framleiðsluaukningu í desember um einn mánuð eða meira vegna áhyggju um eftirspurn. Ákvörðun þess efnis gæti verið tekin í næstu viku, samkvæmt heimildarmönnum Reuters.
Tunna af Brent hráolíu stendur í 74,7 dollurum eftir 2,6% hækkun í dag, þegar fréttin er skrifuð. Markaðsverðið er lítillega lægra en á sama tíma í síðustu viku og hefur því rétt úr kútnum eftir 6% lækkun á mánudaginn, sem rakin var til þess að árás Ísraels á íranska herinn náði ekki til olíuhreinsunarstöðvar.