Orka náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur óskað eftir tilboðum í kaup á 150 megavöttum af rafmagni fyrirtækisins. Þetta er um helmingur af uppsettu afli ON í rafmagni. Kunnugir telja að þetta sé meðal annars orka sem komi til með að losna verði samningar við Norðurál ekki framlengdir.
Fram kemur í frétt á heimasíðu ON að orka sé auglýst til sölu vegna samninga sem eru að renna út á næstu tveimur til fjórum árum. Markmið fyrirtækisins sé að fá markaðsverð fyrir rafmagnið þegar samningar renna út. Samningar um framlengingu gildandi samninga á markaðsverði liggja ekki fyrir og því hafi Orka náttúrunnar gripið til þess ráðs að auglýsa í dag eftir áhugasömum kaupendum á 150 megavöttum af raforku.
Í frétt á heimasíðu félagsins er eftirfarandi haft eftir Árna Hrannari Haraldssyni framkvæmdastjóra ON: „Það er skylda okkar gagnvart eigendum og samfélaginu öllu að bjóða þá orku sem við öflum á markaðsverði. Þarna er einnig mikilvægt að hafa í huga að Orka náttúrunnar er í opinberri eigu og má þess vegna ekki selja rafmagnið undir markaðsverði þar sem það er einfaldlega brot á ríkisaðstoðarreglum. Við núverandi aðstæður teljum við rétt að kanna einfaldlega jarðveginn.”
Samningar við Norðurál renna út 2026
Á heimasíðu Norðuráls kemur fram að álverið kaupi meðal annars 292 megavött af Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku og að raforkuverðið sé tengt við heimsmarkaðsverð á áli. Fram kemur að þessir samningar renna út árið 2026.