Efnisveitin OnlyFans á ekki von á sama samdrætti á fjölda áskrifenda og streymisveitan Netflix er nú að kljást við þrátt fyrir mikla verðbólgu og afnám samkomutakmarkana vegna Covid-faraldursins. OnlyFans er með „algjörlega frábrugðið viðskiptalíkan“ en Netflix að sögn Lee Taylor, fjármálastjóra félagsins. CNBC greinir frá.

Hann segir að Netflix starfi á „mjög mettuðum markaði“ en stórfyrirtæki á borð við Amazon, Disney og Warner Bros. Discovery hafa verið að sækja fram á streymisveitumarkaðnum.

Sjá einnig: Ek hafnar samanburði við Netflix

Hlutabréfaverð Netflix lækkaði um fjórðung eftir birtingu uppgjörs fyrir fyrsta ársfjórðung þar sem fram kom að áskrifendum hefði fækkað um 200 þúsund á fyrstu þremur mánuðum ársins. Jafnframt gerði Netflix ráð fyrir að þeim muni fækka u 2 milljónir til viðbótar á yfirstandandi fjórðungi. Streymisveitan réðst í kjölfarið í uppsagnir.

Fjármálastjóri OnlyFans segir þó að sitt fyrirtæki sé áfram í vaxtarfasa og að starfsmannateymi þess stækki um 2%-3% í hverjum mánuði. Yfir þúsund manns starfa hjá efnisveitunni í dag.

OnlyFans hefur vakið mikla athygli, ekki síst vegna klámefnis sem þar er að finna. Stjórnendur OnlyFans mættu á Money 20/20 fjártækniviðburðinn í Amsterdam í vikunni til að takast á við „misskilning“ um vörumerkið og ná aftur stjórn á umræðunni.