Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant hefur þurft að ráðast í enn eina hópuppsögnina en fyrirtækið sagði upp um áttatíu starfsmönnum í nóvember í fyrra og síðan var um 150 starfsmönnum sagt upp störfum í ágústmánuði.
Samkvæmt mbl.is var fjölda millistjórnenda sagt upp en að sögn Morgunblaðsins var um fimmtíu manns var sagt upp störfum í dag. Von er á tilkynningu frá fyrirtækinu í hádeginu í dag.
Controlant lauk í byrjun nóvembermánaðar um 35 milljóna dala fjármögnun, sem samsvarar um 4,8 milljörðum króna á gengi dagsins.
Fjármögnunin samanstóð af 25 milljóna dala hlutafjáraukningu og 10 milljóna dala lánsfjármögnun.
Fjármögnunin var í samræmi við samþykkt hluthafafundar þann 17. október sl., þar sem stjórn Controlant fékk heimild til útgáfu nýrra hluta til að styðja við framtíðaráform félagsins.
Í fjárfestakynningu fyrir hlutafjárútboðið var greint frá því að útlit væri fyrir það að tekjur félagsins myndu dragast saman um 60% á þessu ári.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í maí lækkaði tekjuspá félagsins fyrir næstu 16 mánuði um 9 milljarða króna en fyrirtækið hefur verið að bregðast við breyttum forsendum eftir samdrátt í Covid-verkefnum.