Play boðaði nú á dögunum grundvallarbreytingu á viðskiptalíkani sínu frá og með miðju næsta ári. Breytingin felur í sér að áfangastöðum í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu verður fækkað frá og með miðju næsta ári. Á hinn bóginn verði áætlun félagsins til Suður-Evrópu efld.
„Markaðsaðstæður á Atlantshafinu hafa breyst á undangengnum misserum. Mikil framboðsaukning hefur verið á beinu flugi á milli Norður-Ameríku og Evrópu sem hefur haft neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins,“ segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.
Hans Jørgen Elnæs, norskur fluggreinandi og ráðgjafi á flugmarkaði, tekur undir þetta og segir að Play hafi átt í erfiðleikum með að keppa við aukið framboð bandarískra og evrópskra flugfélaga á tengiflugi yfir Atlantshafið.
„Aukið framboð bandarískra og að hluta til evrópskra flugfélaga yfir Norður-Atlantshafið á árinu 2024 og áfram inn í árið 2025 hefur aukið þrýstinginn á flugfargjöld. Þetta hefur gert lággjalda viðskiptamódeli Play, sem hefur hingað til verið byggt á tengiflugi yfir Atlantshafið, erfitt fyrir.“
Önnur staða hjá Icelandair
Hans bendir á að norska lággjaldaflugfélagið Norse Atlantic Airways hafi lent í sama mótvindi. Það hafi brugðist við stöðunni með því að færast í átt að leiguflugi til að mæta þrýstingi á flugfargjöld milli Evrópu og Bandaríkjanna. Hann bætir þó við að þróunin virðist ekki hafa haft neikvæð áhrif á Icelandair.
„Þörfin fyrir hágæða vörur er að aukast, sem er eitthvað sem Icelandair getur boðið upp á með Saga Class.“
Hans bætir við að helsti veikleikinn við nýja viðskiptalíkan Play sé hversu takmarkaður íslenski markaðurinn er.
„Það búa einungis 400 þúsund manns á þessari „eyju elds og íss“, sem verður að teljast lítill markaður, sérstaklega í ljósi sterkrar stöðu Icelandair.“
Nánar er fjallað um Play í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.