Kana­díska fylkið Ontario hefur til­kynnt að það muni rifta 100 milljóna dala samningi við Star­link, gervi­hnatta­net­fyrir­tæki í eigu Elons Musk, sem viðbrögð við tollum Bandaríkjanna.

„Kannski getur Elon Musk hringt í félaga sinn. Hann er hluti af teymi Trumps,“ sagði Doug Ford, for­sætis­ráðherra Ontario, á viðburði í Tor­onto í gærkvöldi en Financial Times greinir frá.

Samningurinn, sem var gerður í nóvember, átti að tryggja net­tengingu fyrir 15.000 heimili í af­skekktum hlutum stærsta fylkis Kanada.

Ford sagði að fylkið myndi „rífa upp samninginn við Star­link“ og bætti við: „Ontario mun ekki eiga við­skipti við fólk sem er staðráðið í að rústa efna­hag okkar.“

Kana­dísk fylki hafa gripið til nokkurra gagn­ráð­stafana eftir að Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, kynnti 25% tolla á inn­flutning frá Kanada á laugar­dag. Að­gerðirnar fela meðal annars í sér að fjar­lægja bandarískar drykkjar­vörur úr verslunum og banna bandarískum fyrir­tækjum að taka þátt í opin­berum út­boðum í fylkjunum.

Ford sagði að bandarísk fyrir­tæki myndu tapa tugum milljarða dollara í nýjum samningum ár­lega frá Ontario einu saman.

Justin Tru­deau for­sætis­ráðherra Kanada hefur þegar til­kynnt um 155 milljarða kana­dískra dala tolla á vörur frá Bandaríkjunum. Hann ræddi við Trump í síma á sunnu­dag, en kana­dísk stjórn­völd segja að viðbrögðin séu ekki samræmd milli fylkja landsins.

Að sögn em­bættis­manna eru að­gerðir Kanada hannaðar til að setja þrýsting á bandaríska þing­menn repúblikana og aðra áhrifa­valda í kringum Trump með því að beina að­gerðum gegn fyrir­tækjum og störfum í þeirra ríkjum.

Fyrr­verandi vara­forsætis­ráðherra Kanada, Chrystia Freeland, hefur lagt til að setja tolla á Tesla-bíla til að berjast gegn „auðkýfinga­vinum“ Trump.

Hins vegar hafa stjórn­völd Tru­deau hafnað því að leggja sér­st tolla á einstök vöru­merki og segja að tollar verði aðeins lagðir á heila vöru­flokka.

Gervi­hnatta­net Star­link hefur notið vinsælda meðal Kanada­manna á af­skekktum svæðum sem hafa átt erfitt með að fá ódýra og áreiðan­lega net­tengingu.

Fyrir­tækið til­kynnti í fyrra að það hefði 400.000 virka not­endur í Kanada.