Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu hefur lækkað um 7% í dag eftir að Opec+ tilkynnti óvænt um áform um að auka framleiðslu á sama tíma og boðaðir tollar Bandaríkjanna hafa ýtt undir áhyggjur um minni hagvöxt á heimsvísu. Financial Times greinir frá.
Verð á tunnu af Brent hráolíu hefur lækkað um tæp 7% og stendur í 69,73 dölum þegar fréttin er skrifuð.
Átta aðildarríki Opec+, þar á meðal Sádi-Arabía og Rússland, tilkynntu að þau hyggjast þrefalda áformaða framleiðsluaukningu í maí og vinda þannig hraðar ofan af fyrri skerðingum. Opec+ ríkin áforma þannig að auka framleiðslu í maí um 411 þúsund tunnur á dag, samanborið við fyrra viðmið um 122 þúsund tunnur á dag.
Ríkin sögðu að ákvörðunin hefði verið tekin í ljósi vísbendinga um jákvæðar horfur á mörkuðum.
Heimsmarkaðsverð á öðrum stórum hrávöruflokkum, þar á meðal kopar, áli og úran, hafa einnig lækkað í dag. Í umfjöllun FT segir að vísitala yfir koparverð í LMSE hafi lækkað um 3%. Þá hafi álverð fallið um 2% og ekki verið lægra í sex mánuði.