Vélsmiðja Grindavíkur hefur fengið leyfi frá Almannavörnum til að opna verslun sína að Seljabót 3 á ný. Vélsmiðjan verður þar með fyrsta fyrirtækið til að opna verslun í Grindavík að nýju eftir að bæjarfélagið var rýmt fyrr í mánuðinum. Víkurfréttir greindu fyrst frá.

„Við höfum fengið leyfi til að hafa verslunina opna á milli kl 9.00 og 16.00 þar sem mikið af verktökum eru við vinnu í bænum við að laga lagnakerfi ofl,“ segir í færslu sem Vélsmiðju Grindavíkur birti á Facebook í gærkvöldi. Félagið segirað enn verði þó bið þar til bílaverkstæðið opnar aftur.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tilkynnti í morgun um ákvörðun að rýmka þann tíma sem Grindvíkingar hafa til þess að huga að eigum sínum í Grindavíkurbæ. Opið verður fyrir íbúa og þá sem reka atvinnustarfsemi í bænum frá kl. 7 til kl. 17. Til samanburðar hefur verið opið á milli kl. 9 og 16 síðustu daga.