Norræni ráðningarvettvangurinn The Hub, sem er sérhæfður vettvangur fyrir norræn sprota- og vaxtarfyrirtæki, hefur nú opnað dyrnar fyrir íslenskan markað. Rúmlega 11 þúsund norræn fyrirtæki eru skráð hjá The Hub.
Í tilkynningu segir að um það bil 1000 störf séu auglýst þar í hverjum mánuði sem skili sér í tæplega 50 þúsund mánaðarlegum starfsumsóknum.
Thomas Sveum, framkvæmdastjóri The Hub, segir að íslenska nýsköpunarsenan sé frekar ung, þar sem flestir íslenskir vísissjóðir séu að fjárfesta úr fyrsta eða öðrum sjóði.
„Fjármagn er ekki það eina sem sprotafyrirtæki þarf til að vaxa. Sprotarnir þurfa líka hæft fólk sem drífur fyrirtækið áfram. Nú stendur loksins til að opna dyrnar fyrir nágrönnum okkar á Íslandi og loka þannig norræna hringnum sem The Hub nær til,“ segir Thomas.
Jafnframt segir að rannsóknir hafi sýnt að um fjórðungur sprotafyrirtækja nái ekki árangri vegna þess að fyrirtækin hafi ekki tækifæri til að ráða til sín hæft starfsfólk. Frá stofnun The Hub árið 2015 hefur fyrirtækið leikið stórt hlutverk fyrir norræn sprotafyrirtæki sem vilja ráða til sín mikilvæga liðsmenn.