Plastlausa Matarbúðin Nándin opnar sína aðra verslun að Básvegi 10 í Keflavík á morgun. Eins og nafnið gefur til kynna er lagt upp með að afhenda vörur plastlaust en auk þess leggur verslunin áherslu á að selja lífrænar vörur þegar kostur gefst á ásamt því að bjóða upp á úrval af bæði vegan og glúteinfríum vörum. Einnig verður að finna kaffihús sem bjóða mun auk kaffis og bakkelsis upp á óáfeng vín og „búblur" ásamt ís úr ísvél.
Matarbúðin Nánd er rekin af fjölskyldufyrirtækinu Urta Islandica sem hefur síðastliðinn áratug sérhæft sig í framleiðslu úr íslenskum jurtum og berjum. Þau opnuðu fyrstu Matarbúðina á Austurgötu 47 í Hafnarfirði sumarið 2020.
„Matarbúðin er byggð á hugmynd sem okkur hefur lengi dreymt um, verslun sem selur allt í gleri eða jarðgeranlegum umbúðum,“ segir á heimasíðu Matarbúðarinnar.
Verslunin býður upp á úrval af mat frá íslenskum bændum, smáframleiðendum, fiskverkendum, sælgætisframleiðendum og bökurum. Á staðnum verða í boði ferskir ávaxtasafar og bústar, og umbúðalausar hreinlætisvörur.
Vörunum er pakkað í sellofan sem má fara í jarðgerðartunnu eða í lífræna ruslið. Öllu gleri má skila í Matarbúðina sem er með þvotta- og sótthreinsistöð á staðnum. Mjólkurvörum verður tappað beint á flöskur.
Stofnandi og aðaleigandi Urta Islandica er Þóra Þórisdóttir myndlistarmaður. Ásamt henni eiga Sigurður Magnússon tæknifræðingur, Lilja Sigrún Jónsdóttir, Hólmfríður Þórisdóttir, Sigrún Birta Sigurðardóttir, Guðbjörg Lára Sigurðardóttir og Kolbeinn Lárus Sigurðarsson og Þangbrandur Húmi Sigurðsson hlut í fyrirtækinu.