AI Green Cloud hefur fengið 3.000 fermetra lóð úthlutað í Ölfusi og skrifað undir viljayfirlýsingu við þekkingarsetrið Ölfus Cluster um uppbyggingu gervigreindargagnavers á svokölluðum grænum iðngörðum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að á seinustu árum hafi sveitarfélagið og Ölfus Cluster lagt áherslu á að skapa umgjörð fyrir verðmætaskapandi verkefni í Þorlákshöfn.
„Markmið okkar er að skapa hér viðvarandi velferð fyrir íbúa á þeim forsendum,” segir hann. „Það hefur gengið ævintýralega vel. Svo vel að stærstu atvinnuverkefni Íslandssögunnar eru núna komin vel á veg hér í nágrenni bæjarins.
Hluti af þessum áætlunum er að tryggja fjölbreytni í verkefnum og við teljum að uppsetning gervigreindargagnavers hér geti haft mikil jákvæð áhrif. Ekki eingöngu skapar það ný störf og eykur þekkingu á sviði hátæknigervigreindarlausna, sem stuðlar að frekari fjölbreytni í atvinnulífi heldur mun það einnig styrkja Ölfus Cluster sem miðpunkt fyrir nýsköpun og tækniþróun.
Dæmin hafa einnig sýnt að tilkoma svona verkefna getur dregið að fleiri fjárfestinga- og nýsköpunarfyrirtæki sem vilja nýta sér þann innviði sem svæðið býður upp á.”
Elliði segir verkefni AI Green Cloud mjög spennandi.
„Það opnar dyr fyrir tæknilega hátækninýsköpun og á svæðinu. Með því að hefja þessa vegferð í samstarfi við AI Green Cloud erum við að opna á tækifæri fyrir samstarf milli ýmissa aðila, allt frá hátæknifyrirtækjum til háskólastofnana, sem geta eflt rannsóknir og þróun á sviði gervigreindar og gagnavinnslu.”
Hringrásarhagkerfið
Vegna affalsvarma frá gagnaverinu verður til 55 gráðu heitt vatn, sem hægt er að nýta í önnur verkefni. Elliði segir þetta mjög áhugavert.
„Innan Grænna iðngarðar sem leiddir eru af Ölfus Cluster er mikil áhersla lögð á hringrásarhagkerfið þar sem verðmætastraumar nýtast á milli fyrirtækja. Glatvarmi gagnavers getur nýst til dæmi til að kynda fiskeldisker, slóg frá fiskeldi sem ekki nýtist til manneldis getur nýst til áburðagerðar, áburðurinn nýtist svo í gróðurhús og svo koll af kolli."
„Affallsvarminn frá AI Green Cloud skapar þannig ný tækifæri til sjálfbærrar nýtingar í landeldisfyrirtækjum, gróðurhúsum og öðrum fyrirtækjum sem þurfa stöðuga hitagjafa. Slík nálgun samræmist þeirri stefnu að nýta orkuna á umhverfisvænan hátt, sem getur verið mikilvægur hluti af því að styrkja staðbundinn rekstur og skapa viðbótargildi fyrir svæðið.”
Nánar er fjallað í málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geti lesið fréttina í heild hér.