Í liðinni viku var greint frá áformum bandaríska félagsins Modularity og Borealis Data Center um lagningu neðansjávar fjarskiptasæstrengja sem koma til með að bæta gagnatengingar milli Íslands og Bandaríkjanna auk þess að bæta tengingar landsins við meginland Evrópu. Stefnt er að því að fyrsti áfangi verkefnisins verði tekinn í notkun árið 2026.

Í liðinni viku var greint frá áformum bandaríska félagsins Modularity og Borealis Data Center um lagningu neðansjávar fjarskiptasæstrengja sem koma til með að bæta gagnatengingar milli Íslands og Bandaríkjanna auk þess að bæta tengingar landsins við meginland Evrópu. Stefnt er að því að fyrsti áfangi verkefnisins verði tekinn í notkun árið 2026.

Bjarni Þorvarðarson, fyrrum forstjóri Hibernia Networks sem lagði og rak eigin sæstrengi og ljósleiðaranet víða um heim, hefur unnið með Modularity og verið bandaríska félaginu til halds og trausts í ferlinu. Bjarni segir að Modularity hafi leitað til sínu fyrir tæpu ári.

„Við höfum verið að þróa þetta síðan. Þetta verkefni snýst einkum um að efla hátækni- og gervigreindargagnaversiðnað á Íslandi og tengja þau með nýjum sæstrengjum sem hafa töluvert fleiri ljósleiðara í boði heldur en þeir strengir sem liggja til landsins í dag.“

Bjarni segir að nýju sæstrengirnir komi til með að ryðja úr vegi hindrunum fyrir uppbyggingu öflugra hátæknigagnavera hér á landi. Það hafi lengi staðið gagnaversiðnaðinum á Íslandi fyrir þrifum að það vanti sæstreng sem liggur beint til Bandaríkjanna.

Auk þess hafi það komið í veg fyrir að alþjóðleg tæknifyrirtæki geti komið til Íslands og byggt hátæknigagnaver, að geta ekki keypt beint ljósleiðara á sæstrengjunum sem liggja til landsins. Núverandi sæstrengir til og frá Íslandi séu með 2-6 ljósleiðarapör en nýju sæstrengirnir verða með mun fleiri ljósleiðaraþræði.

„Stærri tæknifyrirtæki sem hafa áhuga á þátttöku í verkefninu þurfa og kjósa að tengja gagnaver sín á Íslandi við önnur gagnaver með ljósleiðurum og jafnvel með fleiri en einu pari ljósleiðara milli gagnavera. Það hentar þeim ekki að fá hefðbundna bandbreidd. Þeir vilja eiga sína eigin ljósleiðara alveg frá gagnaveri til gagnavers. Til þess þarf nýja strengi‏.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.