Orkuveita Reykjavíkur var fyrir Landsrétti í dag dæmd til að greiða Glitni HoldCo 740 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna óuppgerðar afleiðusamninga sem gerðir voru á árunum 2002 til 2008. Að meðtöldum dráttarvöxtum þarf fyrirtækið, sem er að mestu í eigu Reykjavíkurborgar, að greiða yfir þrjá milljarða króna. Stærstur hluti fjárhæðarinnar hefur safnað dráttarvöxtum frá árinu 2008 og nam fjárhæðin 3,3 milljörðum króna með dráttarvöxtum um síðustu áramót.
Landsréttur staðfesti þar með dóm Héraðsdóms frá júlí á síðasta ári og gerði OR auk þess að greiða tveggja milljóna króna málskostnaðarlaun Glitnis HoldCo.
Fyrir dómi var tekist á um átta óuppgerða samninga, en þrír samningar voru um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og fimm voru vaxtaskiptasamningar.
Í tilkynningu frá OR segir að verið sé að farið verði yfir dóminn áður en ákvörðun verði tekin um hvort áfrýjunarleyfis verði leitað hjá Hæstarétti. Þegar dómur féll í Héraðsdómi gagnrýndi OR dóminn og sagði að krafan yrði ekki greidd fyrr en æðra dómsstig hefði dæmti í málinu og hefur krafan því safnað frekari dráttarvöxtum síðan.
Landsréttur gagnrýnir báða málsaðila fyrir hve langan tíma málið hefur tekið. Málið var höfðað árið 2012 en í gagnaöflunarfresti fyrir héraðsdómi í sjö og hálft ár. „Eftir þingfestingu þess og framlagningu dómskjala 1 til 85, fram til dómtöku, voru lögð fram alls 140 dómskjöl. Breyttist grundvöllur málsins nokkuð, svo sem fram kom hér að framan. Á meðal framlagðra gagna var fjöldi bókana með frekari rökstuðningi fyrir málsástæðum aðila. Málatilbúnað af þessum toga verður að telja ómarkvissan. Við báða aðila málsins er að sakast í því efni," segir í dómi Landsréttar.