ORF Líftækni hagnaðist um 51 milljón króna í fyrra. Um er að ræða fyrsta rekstrarárið þar sem ORF Líftækni skilar hagnaði, en félagið er 15 ára gamalt.
EBITDA fyrirtækisins var 195 milljónir í fyrra. Heildarvelta fyrirtækisins var 783 milljónir, samanborið við 634 milljónir króna á árinu 2014, og jókst því um 24% milli rekstrarára.
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Kristinn D. Grétarsson, forstjóri ORF Líftækni, að góður tekjuvöxtur sé helsta ástæðan fyrir því að félagið nái þessum áfanga nú. Áætlanir geri ráð fyrir 30% vexti í ár.
Eigendur standa þétt að baki
Kristinn segir að á þessu ári verði Kína stærsti markaður fyrirtækisins. „Það er eitthvað sem við bjuggumst ekkert endilega við, fyrir tveimur árum síðan, en það hafa verið að gerast mjög góðir hlutir í Kína. Svo er vöxtur á öllum markaðssvæðum. Það er sama hvert við lítum,“ segir hann.
Aðspurður segir Kristinn að engin áform séu um að breyta eignarhaldi félagsins. „Eigendahópurinn er góður og hefur nánast ekkert breyst á síðustu árum. Hluthafar hafa staðið vel á bakvið félagið. Þetta er búið að vera langt ferli, 15 ár. Ég held að hluthafar hafi hug á því að halda áfram að byggja félagið upp og halda því góða ferli áfram,“ segir hann.
Hann segir að fyrirtækið hafi mjög margt í pípunum. Á næstu misserum verði kynntar til leiks nýjar vörur í BIOEFFECT-vörulínunni auk þess sem mörg önnur verkefni séu í gangi í tengslum við frumuvakana sem fyrirtækið þróar. „Maður vill ekki lofa upp í ermina á sér eða segja of mikið,“ segir hann.
Klassísk saga
Kristinn segir að saga ORF Líftækni sé klassísk fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Það taki oft þennan tíma fyrir slík fyrirtæki að skila hagnaði í fyrsta sinn.
Spurður hvort hann hafi einhver skilaboð til fólks sem er að stíga sín fyrstu skref í nýsköpun segir Kristinn að mikilvægt sé að bera virðingu fyrir sölu- og markaðsstarfi. Mikilvægt sé að fá alla með í lið í því efni.
Hann segir að stofnendur fyrirtækisins hafi aldrei séð það fyrir sér að ORF Líftækni yrði svona stórt á sviði fegurðarvara. „En þeir hafa tekið því mjög vel, og ég held að öllum finnist þetta gaman. Þú sérð ekki allt fyrir,“ segir Kristinn að lokum.