Heildarhagnaður Origo nam 704 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 365 milljónir á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst lítillega á milli ára og nam 205 milljónum.

Tekjur Origo jukust um um 14,7% á milli ára og námu 4,9 milljörðum. Tekjuvöxtur er í öllum starfsþáttum félagsins en þó mestur í Notendabúnaði upp á 22,8%.

Í uppgjörstilkynningu Origo segir að enn sé unnið að tillögu um ráðstöfun 28 milljarða króna söluandvirðis af 40% hlut félagsins í Tempo en sölunni lauk formlega í vikunni. Gert er ráð fyrir að á komandi dögum verði boðaður hluthafafundur þar sem tillögur stjórnar verða kynntar.

Syndis metur hversu aðlaðandi fyrirtæki eru í augum hakkara

Origo segir að þjónustulausnir, sem tilheyra einingunni Rekstrarþjónusta og innviðir, hafi verið í mikilli umbreytingu síðastliðna 12-18 mánuði með breytingum á vöru- og þjónustuframboði sem „skilað hefur mun betri rekstri, ásamt því að búa til nokkur góð tækifæri til sóknar“.

Umrædd vaxtarverkefni liggi í netöryggisfyrirtækinu Syndis, Datalab, sem þróar lausnir sem byggja á gervigreindartækni, og Responsible Compute, sem Origo á helmingshlut í á móti Borealis Data Center, sem býður upp á HPC-skýjalausnir.

Fram kemur að Syndis muni í þessum mánuði keyra fyrstu viðskiptavinaprófanir á nýjum hugbúnaði sem metur hversu aðlaðandi fyrirtæki eru í augum hakkara „en Syndis hefur fjárfest verulegu rekstrarfé í hugbúnaðinum á síðustu fimmtán mánuðum“.

Starfsmannafjöldi Syndis nálgast nú fimmtíu talsins en starfsemi félagsins er fjórþætt; á sviði ráðgjafar, öryggisþjónustu (SOC), rannsóknar og þróunar, sem og hugbúnaðargerðar. Origo verður með fjárfestafund þann 4. nóvember næstkomandi þar sem fjárfestum og markaðsaðilum býðst að funda með stjórnendum Syndis.

Tvöföldun á veltu ferðalausna

Velta Origo í hugbúnaðargerð jókst um 7,3% á fjórðungnum. Origo segir sérstaklega ánægjulegt að tekjur á eigin hugbúnaði hafi aukist um 26,4%. „Frábært er að sjá að eftir tvö mögur ár í ferðaiðnaði varð tvöföldun á veltu ferðalausna á þriðja ársfjórðungi.“

Veltu Heilbrigðislausna eftir Covid hefur dregist saman. Origo segir hins vegar að verkefnastaðan þeirrar einingar sé góð og samstæðan leggi áherslu á að auka eigin hugbúnaðargerð fyrir heilbrigðisgeirann.

Jón Björnsson, forstjóri Origo:

„Horfur í rekstri eru ágætar. Við erum í innleiðingarfasa á þeirri stefnumótun sem við fórum í á síðasta ári og höfum úr töluverðu að vinna, sem mun styrkja fyrirtækið enn frekar til sóknar - til hagsbóta fyrir viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa.

Til skemmri tíma erum við að horfa á þau tækifæri sem umbreyting Rekstrarþjónustu félagsins hefur skapað. Að ná fram aukinni vöruvæðingu, svo við eigum auðveldara með að viðhalda gæðum í þjónustu, lægra verði, skapa sterkari umgjörð í kringum viðskiptalegan þátt hugbúnðargerðar, auk þess sem við viljum nýta betur styrk okkar á markaði fyrir notendabúnað.

Til lengri tíma vinnum við eftir skýrum framtíðaráherslum og munum nýta það traust sem við höfum til að vera í stöðugri þróun þegar kemur að starfsfólki og tækniumhverfi og þróa þannig vörur sem bæta lífið. Fyrirtækið er rekstrarlega sterkt og hefur góða stjórn á þeim fjárfestingum sem félagið hefur lagt í og getur dregið úr, verði breyting á hagfelldu umhverfi upplýsingatækni.“