Orku­veita Reykja­víkur hagnaðist um 6,4 milljarða króna í fyrra sam­kvæmt sam­stæðu­reikningi sem stjórn Orku­veitunnar sam­þykkti í dag.Innan Orku­veitunnar eru, auk móður­fé­lagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljós­leiðarinn og Car­b­fix.

Heildar­af­koma sam­stæðunnar á árinu 2023 nam 18,4 milljörðum króna sem er lækkun úr 36,6 milljörðum árið áður.

Tekjur jukust um 10,1% milli ára, fram­legð um 3,8% en veltu­fé frá rekstri stendur nánast í stað.

Fjár­festingar á árinu námu 29,2 milljörðum króna en fjár­hags­spáin gerði ráð fyrir 33,4 milljörðum króna, en ekki náðist að klára þau verk­efni sem voru á döfinni á síðasta árs­fjórðungi ársins 2023. Segir í upp­gjöri að stefnt sé að því að klára þessi verk­efni á nýju ári.

Fjár­magns­kostnaður jókst um 29,7% milli 2022 og 2023 en láns­fé er að lang­mestu leyti sótt á inn­lendan markað.

Stjórn leggur til við aðal­fund að greiddur verði arður sem nemur sex milljörðum króna, þó þannig að tveir milljarðar verði skil­yrtir því að á­form um sölu hluta­fjár í Ljós­leiðaranum og Car­b­fix gangi eftir.

Sæ­var Freyr Þráins­son sem tók við sem for­stjóri Orku­veitunnar fyrir tæpu ári síðan segir nýja stefnu OR marka straum­hvörf í upp­gjörinu.

Hann segir orku­skiptin vera í senn eitt allra stærsta og mikil­vægasta verk­efni í sögu mann­kyns en að það sé einnig flókið og brýnt.

„Orku­skipti lýsir samt ekki nægjan­lega vel þeim tæki­færum sem við sem sam­fé­lag búum yfir,“ segir Sæ­var Freyr.

„Þetta snýst um að breyta fram­leiðslu­að­ferðum, sam­göngum, al­mennum lifnaðar­háttum og finna nýjar leiðir til að hreyfa sam­fé­lög á­fram til meiri árangurs – í sátt við náttúruna. Við í Orku­veitunni erum til­búin til að takast á við þær á­skoranir sem Ís­land og heimurinn allur stendur frammi fyrir,“ segir Sæ­var Freyr.