Orkuveita Reykjavíkur hagnaðist um 6,4 milljarða króna í fyrra samkvæmt samstæðureikningi sem stjórn Orkuveitunnar samþykkti í dag.Innan Orkuveitunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.
Heildarafkoma samstæðunnar á árinu 2023 nam 18,4 milljörðum króna sem er lækkun úr 36,6 milljörðum árið áður.
Tekjur jukust um 10,1% milli ára, framlegð um 3,8% en veltufé frá rekstri stendur nánast í stað.
Fjárfestingar á árinu námu 29,2 milljörðum króna en fjárhagsspáin gerði ráð fyrir 33,4 milljörðum króna, en ekki náðist að klára þau verkefni sem voru á döfinni á síðasta ársfjórðungi ársins 2023. Segir í uppgjöri að stefnt sé að því að klára þessi verkefni á nýju ári.
Fjármagnskostnaður jókst um 29,7% milli 2022 og 2023 en lánsfé er að langmestu leyti sótt á innlendan markað.
Stjórn leggur til við aðalfund að greiddur verði arður sem nemur sex milljörðum króna, þó þannig að tveir milljarðar verði skilyrtir því að áform um sölu hlutafjár í Ljósleiðaranum og Carbfix gangi eftir.
Sævar Freyr Þráinsson sem tók við sem forstjóri Orkuveitunnar fyrir tæpu ári síðan segir nýja stefnu OR marka straumhvörf í uppgjörinu.
Hann segir orkuskiptin vera í senn eitt allra stærsta og mikilvægasta verkefni í sögu mannkyns en að það sé einnig flókið og brýnt.
„Orkuskipti lýsir samt ekki nægjanlega vel þeim tækifærum sem við sem samfélag búum yfir,“ segir Sævar Freyr.
„Þetta snýst um að breyta framleiðsluaðferðum, samgöngum, almennum lifnaðarháttum og finna nýjar leiðir til að hreyfa samfélög áfram til meiri árangurs – í sátt við náttúruna. Við í Orkuveitunni erum tilbúin til að takast á við þær áskoranir sem Ísland og heimurinn allur stendur frammi fyrir,“ segir Sævar Freyr.