Hlutabréf í London lækkuðu í morgun í kjölfar lækkunar á mörkuðum í Asíu og Bandaríkjunum. Gögn sýna að framleiðsla í Bandaríkjunum er enn í lágmarki og einbeita fjárfestar sér nú að atvinnutölum frá Bandaríkjunum sem koma á föstudaginn.
Örflöguframleiðandinn Nvidia varð sérstaklega fyrir barðinu en gengi þess lækkaði um tæp 10% í ljósi minnkandi bjartsýni um uppsveiflu gervigreindar. Þrátt fyrir þessa lækkun þá eru hlutabréf Nvidia enn tvöfalt hærri en þau voru fyrir ári síðan.
FTSE-vísitalan í London lækkaði um 0,76% í viðskiptum ásamt helstu vísitölum Evrópu. Markaðssérfræðingar reyna nú að spá fyrir um það hvernig Seðlabanki Bandaríkjanna muni bregðast við þegar kemur að því að ákveða vaxtastefnu í næstu viku.
Í New York lækkaði S&P um meira en 2% í gær á meðan Nasdaq lækkaði um 3%. Nvidia, sem er skráð á Nasdaq, lækkaði um 9,5% og þurrkuðust 279 milljarðar dala af verðmæti þess út af hlutabréfamarkaðnum.
Japanska Nikkei-vísitalan lækkaði um 4,4% í morgun, Kospi-vísitalan í Suður-Kóreu lækkaði um 3% og Hang Seng-vísitalan í Hong Kong lækkaði um 1,3%.