Andri Jóhannesson, þyrluflugmaður, þvertekur fyrir að kynjaveisla Birgittu Líf Björnsdóttur og Enok Jónssonar hafi kostað fleiri hundruð þúsund krónur. Hann segist hafa verið rúmlega sjö mínútur í loftinu og að þyrlan hafi verið í hengiflugi yfir sjóinn í rúmar 40 sekúndur.
„Ég er búinn að fylgjast aðeins með fjölmiðlum í dag og fólk er að segja að þetta kostaði fleiri hundruð þúsund krónur, en þetta var ekki svo dýrt. Þetta var örugglega ódýrasta þyrluflug sem ég hef flogið. Þetta var bara klink miðað við það sem ferðamenn og aðrir eyða,“ segir Andri í samtali við Viðskiptablaðið.
Andri segir að kynjaveislur með þyrlum séu ekki algengar á Íslandi en hann kannast hins vegar við að fólk hafi fengið listflugvélar í kynjaveislur sínar (e. gender reveal party).
„Í fyrra var gerð svona kynjaveisla á einhverri skútu þar sem listflugvél flaug yfir bátinn og sleppti svo reyknum yfir bátinn. Það var líka einu sinni gert fyrir golfmót á Akranesi. Þá var flogið á 2-3 flugvélum samtímis yfir golfvöllinn og mismunandi litunum sleppt áður en golfmótið hófst.“
„Það sést líka þarna á myndunum að gufan nær ekki einu sinni til jarðar.“
Hann segir einnig að reykurinn sem notaður var hafi ekki verið umhverfisspillandi og að þyrlan hafi allan tímann verið yfir sjóinn meðan atvikið fór fram.
„Við notuðum bara svona gufu eins og er notuð í tæknibrellum í bíómyndum. Svo var henni sleppt og hún eyddist bara þarna yfir sjóinn og allt búið. Það sést líka þarna á myndunum að gufan nær ekki einu sinni til jarðar.“
Andri reiknaði einnig út að hann hafi, á þessum sjö mínútum, eytt rúmlega 20 lítrum af eldsneyti og fóru tæplega fimm lítrar í hengiflugið yfir höfnina.