Heiðar Guðjónsson, fyrrum eigandi að Eykon Energy, gagnrýnir frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, um bann við leit, rannsókn og vinnslu olíu í efnahagslögsögu Íslands. „Það er óskiljanlegt að nokkur ráðherra og sérstaklega ráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli koma fram með slíkt frumvarp,“ segir Heiðar í aðsendri grein á Vísi.

„Að halda að Ísland veki aðdáun vegna þess að við bönnum nýtingu verðmætra auðlinda er barnalegt. Að brjóta brúna frá einum hagkvæmum orkugjafa til annars enn hagkvæmari er glapræði. Það fellur aðeins að kenningunni um að sæl sé sameiginleg eymd.“

Með frumvarpinu, sem lagt var fram í maí síðastliðnum, er lagt til að óheimilt verði að gefa út leyfi til leitar, rannsóknar eða vinnslu kolvetnis (olíu) í efnahagslögsögunni. Fyrirhuguð lagabreyting er hluti af stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna sem stefnir að kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum á Íslandi fyrir árið 2040.

Heiðar segir að í gegnum söguna hafi einn orkugjafi leitt til annars yfir tíma sem hafi bætt orkuframleiðslu heims. Hins vegar gerist þróunin ekki í stökkum og því furðar hann sig á stjórnmálamönnum sem „freistast til að ætla að stökkbreyta orkubúskapnum með mjög misráðnum aðgerðum“.

„Skýrasta dæmið um þetta er að finna í Evrópu sem sér fram á meiri háttar rýrnun lífsgæða í vetur og næstu árin ásamt auknum útblæstri koltvísýrings því verið er að kveikja aftur á gömlum kolaorkuverum sem menga allt að hundraðfalt á við gasorkuver.“

Forsendur fyrir banni á gasvinnslu úr steini vitleysa

Hann segir firringuna í Evrópu mikla og undrast á því að ekki hafi verið hafist handa strax við vinnslu á gasi úr steini (e. fracking) þó hægt sé að vinna gríðarlegt magn jarðgass á hagkvæman hátt úr einni stærstu gaslind heims í Groningen í Hollandi.

„Gasvinnslu þar hefur verið lokað í áföngum frá 2014 út af jarðskjálftum sem fylgdu vinnslunni. Þeir skjálftar voru sambærilegir þeim sem við á suðvesturhorni Íslands þekkjum vel frá vinnslu á jarðvarma á Hellisheiði.

Í Bretlandi hefur vitleysan gengið enn lengra því þar var sett inn að jarðskjálfti sökum orkuvinnslu mætti ekki fara yfir 0,5 á Richter - sem er svipað og þegar stól er velt á gólf nálægt jarðskjálftamæli. Ef mörkin yrðu færð upp í það sem við erum vön á Íslandi gæti Bretland orðið sjálfbært um orku á 6 mánuðum og séð Þýskalandi fyrir gasi að ári liðnu.“

Bresk stjórnvöld lögðu bann á vinnslu á gasi úr steini árið 2019. Ríkisstjórn Liz Truss afnumdi bannið og lýsti yfir að slík gasvinnsla myndi leiða til lækkandi orkuverðs. Rishi Sunak, sem tók við embætti forsætisráðherra í vikunni, hefur þegar tilkynnt um að bannið verði lagt aftur á en margir þingmenn úr röðum Íhaldsflokksins fundu fyrir óánægju meðal kjósenda í sínum kjördæmum með afnám bannsins.

Ekki sjálfsagt að rússnesk olía flæði til Kína eða Indlands

Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hafa vestræn ríki sett á viðskiptaþvinganir á rússneska olíu og gas. Evrópusambandið hefur sem dæmi bannað stóran hluta af innflutningi á rússneskri olíu. Margir óttast að Rússar muni einfaldlega beina útflutningi sínum til annarra heimshluta og þá sérstaklega asíu.

Heiðar segir að í tilviki hráolíu sé það síður en svo einfalt fyrir Rússland að beina útflutningi til annarra heimshorna.

„Olía sem er rík af brennisteini, svo sem frá Kanada, Venesúela eða Rússlandi þarf annars konar hreinsun og meðhöndlun en olía úr Persaflóa. Það er því ekki þannig að hætti Evrópa að kaupa hráolíu frá Rússlandi að hún flæði til Kína eða Indlands. Þar er ekki hægt að taka á móti henni og hreinsa því þeirra kerfi er lagað að olíu frá Persaflóa. Það tekur jafn langan tíma að aðlaga núverandi olíuhreinsistöðvar Kína og Indlands að rússneskri olíu og að byggja nýjar.“

Heiminum vanti olíu og jarðgas til að brúa bilið að orkuskiptum framtíðar og minnka vægi einræðisríkja í heiminum.

„Í þessu ljósi er afskaplega óskynsamlegt að færa í lög á Íslandi að bannað verði að leita og vinna olíu og gas hér við land eins og umhverfis- orku- og loftslagsráðherra leggur til í frumvarpi að nýjum lögum.“

Engin virk olíuleit hefur átt sér stað í lögsögu Íslands síðastliðin fjögur ár frá því að leyfi Eykon Energy til olíuleitar á Drekasvæðinu var afturkallað af Orkustofnun í mars 2018 í kjölfar þess að samstarfsaðilar Eykon - CNOOC Iceland ehf. og Petoro Iceland AS - gáfu eftir sinn hlut af leyfinu.