Sé það rétt sem fram hefur komið í fréttum um samninga um þinglok liggi það fyrir að Flokkur fólksins hafi ekki fengið neitt úr þeim samningum. Þetta bendir Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á í færslu á Facebook.

Hann segir Flokk fólksins hljóta að velta fyrir sér eigin stöðu í stjórnarsamstarfinu eftir atburði gærdagsins. Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formenn Samfylkingar og Viðreisnar, hljóti einnig að velta fyrir sér í ljósi atburða síðustu daga, vikna og mánaða hversu lengi flokkar þeirra ætli að halda áfram stjórnarsamstarfi við stjórnmálaflokk sem sé augljóslega ekki stjórntækur.

„Þær ættu a.m.k. að hafa í huga að þessar uppákomur og ruglið í tengslum við fulltrúa Flokks fólksins eru að sínu leyti í boði Samfylkingarinnar og Viðreisnar.

Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða almenningi upp á í þeim efnum,“ skrifar Sigurður Kári.

Kjarnorkuákvæðið vanhugsað og beitt fyrir lítið

Í þinglokasamningnum felist að Viðreisn fái að hækka skatta á sjávarútvegsfyrirtækin í landinu með dyggum stuðningi Samfylkingarinnar. Frumvarp um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem ágæt sátt virðist vera um, verði klárað, auk þess sem fólki verði veittur ríkisborgararéttur, eins og alltaf við þinglok. Þess utan verði fjármálaáætlun kláruð, eins og lög áskilja og allir hafi skilning á.

„Önnur mál verða ekki kláruð. Þau falla niður dauð.“

Sigurður Kári telur ríkisstjórnina varla ánægða með þennan samning, enda eftirtekjan ekki mikil. Ríkisstjórnin fái í raun afar lítið út úr þessum samningi miðað við allt sem lagt hafi verið í sölurnar, sérstaklega með beitingu kjarnorkuákvæðis þingskapa.

„Allt var það á endanum vanhugsað, gert af litlu tilefni og fyrir lítið.“

Hafi ríkisstjórnin fengið lítið út úr þessum samningum þá hljóti niðurstaðan að vera hreint áfall fyrir Flokk fólksins og kjósendur hans, því Inga Sæland hafi engum árangri náð í þessum samningaviðræðum.

„Niðurstaða samninganna þýðir að Kristrún og Þorgerður hafa ákveðið að fórna helstu baráttumálum Ingu Sæland og Flokks fólksins í samningum um þinglok, þ. á m. helstu kosningamálum Ingu og co um strandveiðar og breytingar á lífeyriskerfinu.“

Kjósendur Flokks fólksins hljóti að vera vonsviknir að sjá að samstarfsflokkarnir, Samfylkingin og Viðreisn, umgangist flokkinn frekar sem hækju og hjálpargagn í þessu stjórnarsamstarfi, en sem raunverulegan og marktækan þátttakanda í samstarfinu.

„Það sést á því að Samfylkingin og Viðreisn voru ekki lengi að fórna helstu baráttumálum Flokks fólksins þegar það þjónaði hagsmunum þeirra,“ skrifar Sigurður Kári.

Sigurjón hafi endanlega klúðrað málunum

Forysta Flokks fólksins geti hins vegar ekki kennt samstarfsflokkunum í ríkisstjórn alfarið um ófarir sínar og stefnamála sinna.

„Framganga ráðherra og þingmanna flokksins hefur verið með þeim hætti á síðustu dögum að öllum ætti endanlega að vera orðið ljóst að Flokkur fólksins er ekki stjórntækur. Forystumenn flokksins hafa hvorki burði til að koma að landsstjórninni né virðast þeir vera í neinu jafnvægi til að koma að henni.“

Það hafi t.d. sést á furðulegum yfirlýsingum Guðmundar Inga Kristinssonar, menntamálaráðherra, um meint valdarán stjórnarandstöðunnar í vikunni.

„Og ekki var hún mikið betri þvælan í Ingu Sæland um að stjórnarandstaðan vildi koma á því fyrirkomulagi hér á landi að fráfarandi valdhafar yrðu dregnir undir húsvegg og skotnir við stjórnarskipti.“

Sigurður Kári telur þó að líklega hafi þingmaður flokksins, Sigurjón Þórðarson, klúðrað því endanlega að Flokkur fólksins næði einhverjum af sínu málum fram við þessi þinglok með vanhugsuðum hótunum um að kjarnorkuákvæðinu yrði aftur beitt ef þingmenn stjórnarandstöðunnar voguðu sér að taka aftur til máls um veiðigjöld eða önnur umdeild frumvörp í þinginu.

Facebook-færslu Sigurðar Kára má lesa í heild hér að neðan.