Bryndís Hlöðversdóttir tók við sem rektor háskólans á Bifröst í upphafi ársins. Áður var hún forseti lagadeildar skólans og aðstoðarrektor. Bryndís tók við af Magnúsi Árna Magnússyni, sem leitt hafði samningaviðræður við Háskólann í Reykjavík um mögulega sameiningu skólanna tveggja. Undir lok síðasta árs varð hinsvegar ljóst að ekkert yrði af sameiningu skólanna og Bifröst dróg sig út úr viðræðum. „Sumir tengja þessa umræðu, um sameiningu og fækkun háskóla, við hagræðingu og sparnað í skólakerfinu. Því er slegið fram að það sé ekkert vit í að starfrækja sjö háskóla í svo litlu landi. En til að koma til móts við þau sjónarmið þarf sameining að skila hagræðingu, einhverri hagkvæmni til framtíðar,“ segir Bryndís. Hún segir að Háskólinn á Bifröst hafi farið af fullum hug í samningaviðræður við HR. Um tíma var Listaháskólinn einnig þátttakandi í þeim viðræðum.
„Við skoðuðum mögulegar sameiningar ofan í kjölinn. Ég sá ákveðin tækifæri, til að styrkja skólana, brjóta upp og búa til eitthvað nýtt. En um leið er mikilvægt að við fletjum skólana ekki út. Þrátt fyrir allt hafa þeir sína sérstöðu. Það var sú niðurstaða sem á endanum varð til þess að Bifröst ákvað að draga sig úr umræðum. Við óttuðumst að okkar sérstaða, sem á sterkar rætur og sögu, myndi tapast. Það kom í ljós að hagræðingin yrði takmörkuð, nema þá að loka starfsemi á öðrum staðnum, í Reykjavík eða á Bifröst. Margir óttuðust að það yrði á Bifröst,“ segir Bryndís.
„Hollvinir og velunnarar Bifrastar risu upp. Háskólarnir í Borgarfirði eru gífurlega mikilvægir fyrir nærsamfélagið, auk þess sem skaði yrði fyrir íslenskt háskólasamfélag ef Bifröst hyrfi af sviðinu. Við höfum sérstöðu sem kampusháskóli sem hafnar fjöldafyrirlestraforminu og byggir á nálægð við nemendur og virkri þátttöku þeirra í tímum. Smæðin og háskólasvæðið gerir okkur kleyft að gera hlutina öðruvísi en stærri skólarnir í Reykjavík. Það verur líka að huga að fjölbreytni og að allir séu ekki steyptir í sama mót.“
Bryndís telur vert að benda á að kostnaður íslenska háskólakerfisins sé undir meðaltali ríkja OECD. Önnur skólastig séu hinsvegar yfir meðaltali. Því sé ekki endilega rétt að einblína á háskólana þegar leitað er hagræðingar. „Það er þó mikilvægt að skólarnir vinni náið saman og efli sig faglega. Það má gera með samvinnu, til dæmis með því að reka saman tilteknar námsleiðir. Við höfum átt í slíku samstarfi við bæði HÍ og LHÍ. Það hefur gengið mjög vel og eðlilegt að skólarnir vinni náið saman til að styrkja sína faglegu inniviði, og til að nýta betur fjármuni.“ Bryndís segir að þrátt fyrir að Bifröst hafi dregið sig úr viðræðum um sameiningu við HR muni umræðan um sameiningu og samþættingu háskóla halda áfram. Nauðsynlegt sé að vera vakandi fyrir hvernig megi hagræða og styrkja háskólakerfið.
Nánara viðtal við Bryndísi má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.