Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Parka Lausnir ehf. hefur innreið á leigubílamarkað á nýju ári. Félagið rekur samnefnt smáforrit Parka sem gerir fólki kleift að greiða fyrir bílastæði í símanum, en appið hefur nú verið starfrækt í rúm tvö ár. Þá hyggst félagið gera fyrirtækjum kleift að greiða fyrir bílastæði viðskiptavina undir nafninu Parka Spons.
Samkeppni við Hreyfil og BSR
Parka Taxi hefur göngu sína strax í næsta mánuði og er ætlað að veita Hreyfli og BSR samkeppni á leigubílamarkaði „Aðdragandinn er þannig að Parka ehf. keypti fyrirtækið Drivers ehf. sem ég stofnaði ásamt nokkrum öðrum fyrir þremur árum," segir Ívar Freyr Sturluson, markaðs- og sölustjóri Parka.
Hann segir að byrjað verði með fyrirtækjaþjónustu þar sem fyrirtækjum er boðið að panta bíl í reikning í appinu fyrir starfsfólkið sitt eða kúnnana sína. Þegar framboð leigubílstjóra nær að anna eftirspurn mun appið opna fyrir almenna leigubílaþjónustu og segist Ívar vongóður um að það náist eftir um fjóra mánuði.
Leigubílstjórar geti aukið tekjur sínar
Hreyfill hafði bannað leigubílstjórum að nýta sér Drivers appið til að sækja sér ferðir, en nýlega kom út úrskurður Samkeppniseftirlitsins. Í úrskurðinum segir að Hreyfill hafa brotið samkeppnislög þar sem fyrirtækinu er óheimilt að banna bílstjórum að sækja sér ferðir utan þeirra sem koma frá stöðinni sjálfri. „Svo lengi sem þú ert löggildur leigubílstjóri og með hreint sakavottorð, þá geturðu skráð þig í Parka Taxi. Leigubílstjórar sem skrá sig hjá okkur þurfa ekki að hætta að keyra fyrir önnur fyrirtæki, þetta er bara viðbót við það." segir Ívar.
Á vefsíðu Parka segir að leigubílstjórar sem sækja ferðir í appinu eigi m.a. möguleika á að stjórna ferðum sínum betur og aukið tekjur sínar. Ívar segir alla fídusa appsins mynda ákveðna heild sem vinni saman að því að einfalda líf fólks. „Fólk getur keyrt niður í miðbæ, lagt í stæði með appinu og fengið sér að drekka. Síðan getur það tekið leigubíl með sama appinu á meðan bíllinn er enn í stæðinu. Það auðveldar viðskiptavininum mikið að geta nálgast alla þessa fídusa í sama appinu."
Viðbótin Parka Spons hefur verið lengi í bígerð að sögn Ívars, en hugtakið þekkist erlendis undir heitinu „Parking Validation". Hann segir Parka Spons tilvalið fyrir fyrirtæki sem vilja greiða fyrir bílastæðakostnað starfsmanna sinna og kúnna sem boðaðir eru á fundi hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið fær síðan reikning í lok hvers mánaðar fyrir bílastæðakostnað þeirra bíla sem fyrirtækið hefur þegar skráð inn í appið.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .