Ný fimm manna stjórn Arion banka var kjörin á aðalfundi bankans sem stendur nú yfir en alls voru sjö frambjóðendur í stjórnarkjörinu. Hluthafar Arion kusu fimm sitjandi stjórnarmenn í samræmi við tillögur tilnefningarnefndar bankans. Niðurstöðu stjórnarkjörsins má finna neðst í fréttinni.
Þá var Paul Horner kjörinn stjórnarformaður bankans í samræmi við tilnefningu tilnefningarnefndar. Hann tekur við stjórnarformennsku af Brynjólfi Bjarnasyni sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Kristín Pétursdóttur var kjörin varaformaður stjórnar.
Paul Horner hefur unnið lengi í fjármálageiranum og starfaði m.a. í framkvæmdastjórnum hjá The Royal Bank of Scotland Group, Coutts & Co Ltd., Coutts & Co Ltd. og Ulster Bank DAC. Í dag situr Paul í stjórnum AIB Group P.L.C., The National Bank of Kuwait og LHV (UK) Ltd.
Stjórn Arion banka næsta starfsárið skipa því eftirfarandi einstaklingar:
- Paul Horner, nýr stjórnarformaður – tók sæti í stjórn í ágúst 2019
- Kristín Pétursdóttir, varaformaður – tók sæti í stjórn í mars 2023
- Gunnar Sturluson – tók sæti í stjórn í ágúst 2019
- Liv Fiksdahl – tók sæti í stjórn í mars 2019
- Steinunn Kristín Þórðardóttir – tók sæti í stjórn í nóvember 2017
Stjórn bankans ákvað að kosningu stjórnar bankans yrðu þannig háttað að aðalstjórn verði skipuð fimm einstaklingum, en ekki sex líkt og undanfarið starfsár. Tilnefningarnefnd Arion lagði til að stjórn bankans næsta starfsárið yrði skipuð ofangreindum fimm af núverandi sex stjórnarmönnum, þ.e. öllum þeim sem gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Auk framangreindra frambjóðenda gáfu Guðrún Johnsen og Peter Franks kost á sér til stjórnarsetu hjá Arion. Alls voru því sjö frambjóðendur að keppast um fimm stjórnarsæti á aðalfundinum.