Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir að breyting á núvirðingarkröfu við mat á skuldbindingum lífeyrissjóða muni ekki breyta eftirspurn þeirra eftir verðtryggðum skuldabréfum í hagkerfi með þekkta verðbólgusögu.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, viðraði á fundi SFF á fimmtudaginn hugmynd um að breyta ávöxtunarviðmiði lífeyrissjóða þannig að það taki ekki lengur mið af raunávöxtun.
Hann hélt því fram að breytt ávöxtunarviðmið myndi breyta dýnamíkinni á skuldabréfamarkaði sem einkennist af háu hlutfalli verðtryggðra skuldabréfa.
„Við fengjum náttúrulega eftirspurn eftir löngum óverðtryggðum skuldabréfum og við værum að stíga risastórt skref í að afnema þessa verðtryggingu sem eiginlega enginn vill.“
Benedikt benti á að lífeyrissjóðir eiga 70% af öllum skráðum skuldabréfum á Íslandi og 86% þeirra skuldabréfa séu verðtryggð. Hann sagði að því miður sé eftirspurn á íslenska skuldabréfamarkaðnum fyrst og fremst verðtryggð sem haldi verðtryggingunni að einhverju leyti uppi.
Yrði áfram horft til að verja kaupmátt með raunávöxtun
Gunnar telur að jafnvel þótt ávöxtunarviðmiðinu yrði breytt þá verði verðtryggðar eignir og skuldabréf áfram mikilvægar í eignasafni lífeyrissjóða til að verja kaupmátt lífeyrisþega til langs tíma.
„Lífeyrissjóðir munu alltaf sækjast eftir að verja kaupmátt sjóðfélaga með því að stefna að ávöxtun umfram verðbólgu,“ segir Gunnar í samtali við Viðskiptablaðið.
„Jafnvel þó verðtrygging yrði afnumin af skuldbindingum og lífeyrisgreiðslum myndi það engu breyta, markmiðið yrði alltaf að verja kaupmátt lífeyrisþega með því að sækjast eftir jákvæðri raunávöxtun.
Verðtryggð skuldabréf eru mikilvægur eignaflokkur í landi með viðvarandi verðbólgu. Við slíkar aðstæður þyrftu óverðtryggð skuldabréf að vera með breytilega vexti eða hraustlegt verðbólguálag til að vera eftirsóknarverð fyrir fjárfesta. Verðbólgan er vandamálið en ekki ávöxtunarkrafa sem er notuð til að núvirða lífeyrisgreiðslur í framtíð.“