Óli Jón Hertervig, skrifstofustjóri eignaskrifstofu borgarinnar, segir söluferlið á Perlunni vera á byrjunarstigi.
Borgin sé ekki með verðmat á eigninni í höndunum enn sem komið er en samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins byggðum á mælikvörðum sem sérfræðingar á eignamörkuðum styðjast við má áætla að verðmat Perlunnar sé á bilinu 2,5 til 3 milljarðar íslenskra króna.
Leigutekjur Perlunnar eru rúmar 20 milljónir á mánuði en rekstrarkostnaður eignarinnar er hærri en gerist og gengur. Með Perlunni fylgir þó byggingarréttur á lóðinni fyrir 1.238,5 m2 viðbyggingu sem mun óhjákvæmilega hækka verðmatið.
Auglýst fyrir árslok
„Erindi borgarráðs snerist um það að við fengjum heimild til að hefja söluferlið. Það þarf síðan staðfestingu borgarstjórnar, sem er eftir hálfan mánuð. Við erum þá að fara að stíga fyrstu skrefin en það getur tekið marga mánuði að fá verðmat og slíkt,“ segir Óli Jón.
„Við höfum ekkert verið að velta þessu sérstaklega fyrir okkur enda erum við ekkert að flýta okkur. Við ætlum bara að auglýsa þetta, vonandi á þessu ári. Við gerum það þegar búið er að verðmeta þetta og sjá hvað við getum fengið fyrir þetta,“ segir Óli Jón.
Sem fyrr segir eru leigutekjurnar rúmar 20 milljónir en Óli Jón segir að byggingarréttinn og ýmislegt annað þurfi að verðmeta til að fá heildarverðmat í eignina. „Það eru ekki bara leigutekjurnar sem búa til verðmætin.“
Aðspurður segir hann Perluna langt frá því að vera eina af verðmætustu eignum borgarinnar en þar má nefna Ráðhúsið, Orkuveituhúsið, Borgarleikhúsið, Hörpuna og fleira. „Ef við miðum við fasteignamat eða slíkt varðandi verðmætustu eignirnar þá eru sumir grunnskólar miklu stærri, eins og Úlfarsárdalurinn, sem er þrettán milljarðar,“ segir Óli og á þar við miðstöð skóla, menningar og íþrótta í Úlfarsárdal.
Óli Jón segir líklegt að borgin muni fá fasteignasölu með sér í lið til að verðmeta Perluna en salan sjálf mun að öllum líkindum fara í gegnum borgina.
Þegar borgin keypti Perluna árið 2013 var reksturinn í miklu tapi og segir Óli Jón borgina nú vera að skila góðri vöru á markað og það sé best að aðrir þrói húsnæðið áfram.