Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið PLAIO hefur tryggt sér fjármögnun upp á 4,3 milljónir evra, eða um 650 milljónir króna.

Í tilkynningu segir að fjármögnunin verði notuð til að efla starfsemi PLAIO í Evrópu og til sóknar á Bandaríkjamarkað, ásamt því að nýtast til þróunar á gervigreindartólinu Coplanner.

Iðunn, fjárfestingarsjóður í umsjá eignastýringar Kviku banka, leiðir fjármögnunina með áframhaldandi þátttöku frá núverandi fjárfestum, Frumtaki og Dr. Agon. Pétur Richter, fjárfestingastjóri Iðunnar, og Andri Sveinsson frá Dr. Agon taka í kjölfarið sæti í stjórn PLAIO.

Við stofnuðum PLAIO í þeim tilgangi að breyta úreltum, ónákvæmum og óhagkvæmum aðferðum í aðfangastýringu innan lyfjageirans. Ég hef starfað lengi að stýringu aðfangakeðjunnar og orðið vitni að þeim flóknu vandamálum sem lyfjafyrirtæki standa frammi fyrir á hverjum degi þegar kemur að ákvarðanatöku í aðfangakeðjunni,“ segir Jóhann Guðbjargarson, stofnandi og framkvæmdastjóri PLAIO.

Í tilkynningu segir jafnframt að viðskiptavinum PLAIO hafi fjölgað um 200% á undanförnum tólf mánuðum, og eru nú alþjóðleg lyfjafyrirtæki á borð við Covis Pharma, Camarus og Alvotech á meðal viðskiptavina.

Við sjáum PLAIO sem mikilvæga lausn fyrir lyfjafyrirtæki og hún mun geta skipt sköpum þegar kemur að hámörkun og betri nýtingu hráefna. Við höfum sterka trú á að fyrirtækið muni verða leiðandi á þessu sviði innan nokkurra ára og erum afar spennt að taka þátt í þessari vegferð,” segir Pétur Richter, fjárfestingastjóri hjá Iðunni.