„Ég held að það sé fullkomlega raunhæft að tvö flugfélög séu í góðum rekstri á Íslandi og tel að Play sé komið til að vera,“ segir Birgir Jónsson forstjóri Play.

Flugfélagið hefur tapað talsverðum fjármunum frá stofnun félagsins í júní árið 2021. Það tapaði um 22,5 milljónum dala, um 2,9 milljarða króna, á fyrsta rekstrarárinu árið 2021 og 45,5 milljónum dala árið 2022, eða sem nemur 6,6 milljörðum króna. Þá skilaði rekstur félagsins 17,2 milljón dala tapi á fyrsta ársfjórðungi, eða sem nemur 2,3 milljörðum króna.

„Við vildum sjá betri afkomu síðasta sumar. Hátt hlutfall tengifarþega var líklega ástæðan fyrir því að við náðum ekki tekjumarkmiðum okkar þrátt fyrir að ná markmiðum um sætanýtingu og fjölda farþega. Hliðartekjurnar voru líka ekki nægilegar á síðasta ári, en núna erum við að sjá fram á tugprósenta  aukningu á hliðartekjum milli ára eftir að hafa gert umbætur á bókunarvefnum og breytt áherslum í sölu- og dreifingarferlinu. Þar að auki er mjög mikil eftirspurn í Bandaríkjunum núna og verðin mun hærri en áður svo að hærra hlutfall tengifarþega er mun hagfelldara fyrir okkur en í fyrra,“ bætir hann við.

Birgir segir háan eldsneytiskostnað í fyrra hafa reynst mikið högg fyrir reksturinn. Það sé þó eðlilegt að nýstofnað flugfélag í vaxtarfasa skili neikvæðri afkomu til að byrja með.

„Mér finnst oft eins og markaðurinn og fjárfestar gleymi því að við erum í raun sprotafyrirtæki. Við höfum alltaf náð kostnaðarmarkmiðum okkar upp á 3,5 sent á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) án eldsneytis. Fram að þessu hefur félagið hins vegar ekki náð að svara kostnaðinum með tekjum. Ég viðurkenni það að ég hlakka mikið til að fara sýna fólki betri afkomu núna þegar félagið er komið á stöðugri stað miðað við það sem áður var. Það verður skemmtilegt eftir þessi tvö ár.“

Hann bendir á að almennt sé mikil hliðrun á kostnaði og tekjum í flugrekstri yfir árið.

„Í mörgum öðrum rekstri er hægt að para saman einhvers konar tekjur og kostnað innan sama ársfjórðungs. Í fluginu er það allt öðruvísi, kostnaðurinn er hlaðinn á fyrri hluta árs en á sumrin dregur úr kostnaði og við bókum stóran hluta tekna félagsins inn.“

Nánar er rætt við Birgi Jónsson, forstjóra Play, í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun, föstudaginn 16. júní.