Flugfélagið Play hefur bætt þrem áfangastöðum í Evrópu við flugáætlun sína. Áfangastaðirnir eru Dublin á Írlandi, Madríd í Spáni og Brussel í Belgíu.
Flogið verður þrisvar sinnum í viku til Dublin en ferðir til borgarinnar hefjast í lok apríl 2022. Play mun fljúga þrisvar sinnum í viku til Brussel og hefst flug þangað í maí. Auk þess hefst áætlunarflug til Madrid í júní en flogið verður tvisvar í viku.
Með viðbótinni eru áfangastaðir félagsins í Evrópu orðnir 23 talsins. Nýlega bættust Lissabon í Portúgal, Bologna á Ítalíu, Stuttgart í Þýskalandi og Prag í Tékklandi við leiðakerfi Play. Auk þess mun Play hefja áætlunarflug til austurstrandar Bandaríkjana næsta vor og segir í tilkynningu frá Play að Dublin og Brussel séu lykilborgir þegar kemur að því að flytja flugfarþega yfir Atlantshafið.
„Það er virkilega ánægjulegt að bæta við enn fleiri áfangastöðum í Evrópu sem styrkja leiðakerfið okkar til muna. Þetta eru frábærar borgir sem hafa í gegnum tíðina notið mikilla vinsælda meðal Íslendinga og það er gaman að geta boðið lægsta verðið til þessara þriggja borga eins og til annarra áfangastaða okkar. Þá eru þetta borgir sem eru mikilvægar fyrir farþegaflutninga yfir Atlantshafið," segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, í tilkynningu.