Hlutabréfaverð Play er búið að lækka um 19,8% í fyrstu viðskiptum í dag og stendur í 1,54 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Velta með bréf félagsins nemur 5 milljónum króna það sem af er degi.

Til samanburðar fór dagslokagengi hlutabréfa Play lægst í 1,58 krónur fyrir mánuði síðan.

Play greindir frá því í gær að uppfærð afkomuáætlun gefi vísbendingar um að rekstrarafkoma félagsins verði verri en á síðasta ári, ólíkt því sem spáð hafði verið fyrir um. Flugfélagið sagði áhrif framboðsaukningar á flugi yfir Atlantshafið hafa haft meiri áhrif á stöðu félagsins en ætlað var.

Play sagði fjárhagsstöðu sínu þó áfram sterka og að ekki sé talin þörf á auknu fjármagni til rekstrarins á næstunni.

Samhliða boðaði Play „grundvallarbreytingar“ á viðskiptalíkani félagsins frá og með miðju næsta ári. Megininntak þeirra er að félagið hyggst stórefla þjónustu félagsins til sólarlandaáfangastaða frá Íslandi en draga töluvert úr umsvifum tengiflugs á milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Þá hefði félagið hafið umsóknarferli um flugrekstrarleyfi á Möltu og reiknar Play með að flugrekstrarleyfið verði í höfn næsta vor. Félagið stefnir á að nýta tíu véla flugflota sinn m.a. með því að fljúga fyrir aðra aðila utan Íslands.

Play lauk 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningu í vor þar sem útgáfuverðið var 4,6 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Play hefur lækkað um 66,5% síðan þá og alls lækkað um meira en 80% í ár.