Flugfélagið PLAY hefur hafið sölu á áætlunarferðum til marokkósku borgarinnar Agadir. Fyrsta flugið verður 19. desember næstkomandi en flogið verður einu sinni í viku á föstudögum þangað til um miðjan apríl 2026.
PLAY verður einnig með áætlunarflug til Marrakesh í Marokkó næsta vetur.
Flugtíminn til Agadir er um fimm og hálf klukkustund en borgin liggur við Atlantshafið og er veðurfar þar því svipað og á Tenerife. Íbúar Agadir upplifa að jafnaði 300 sólardaga á ári en þar má finna gylltar strendur og golfvelli.
PLAY er nú með 16 sólarlandaáfangastaði í sölu en þar á meðal eru átta á Spáni, fjórir í Portúgal ásamt Split í Króatíu og Antalya í Tyrklandi.
„Flugáætlunin okkar til borgarinnar mun ná yfir jólin í ár og páska á næsta ári og veturinn þar á milli og ég er sannfærður um að margir muni nýta þetta einstaka tækifæri til að upplifa þessa mögnuðu borg,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY.