Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til borgarinnar Pula í Króatíu. Fyrsta flugið verður laugardaginn 31. maí 2025 og verður flogið einu sinni í viku fram til 16. ágúst.

Þetta er annar áfangastaður Play í Króatíu en Play hefur flogið einu sinni í viku til Split í ár og mun áætlunin standa út október í ár. Á næsta ári verður ferðum til Split fjölgað í tvisvar sinnum í viku þegar mest lætur yfir áætlunina sem stendur frá 14. apríl og fram til loka október.

Þá mun PLAY einnig bjóða upp á þrjár ferðir til Zagreb í Króatíu í janúar. Ferðirnar þrjár eru allar á dagskrá í tengslum við leiki íslenska karlalandsliðsins í handbolta í riðlakeppni heimsmeistaramótsins.

„Íslendingar tóku vel í Split og því er rökrétt ákvörðun að bjóða upp á aðra perlu í Króatíu. Þetta eru gríðarlega fallegir áfangastaðir sem við trúum að muni heilla Íslendinga. Við höfum státað okkur af því að vera með eina glæsilegustu sólarlandaáætlun sem fyrirfinnst og Pula mun án efa laða marga að,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY.